Fara í efni

KVÓTANN HEIM: TÖLUM SAMAN TIL AÐ BREYTA



Birtist í Víkurfréttum á Suðurnesjum 11.03.20.
 
Frá því í ársbyrjun hefur verið efnt til fundahalda undir yfirskriftinni Gerum Ísland heilt á ný – kvótann heim. 
Ástæðan fyrir þessari yfirskrift og herhvöt er sú, að kvótakerfið í þeirri mynd sem við höfum þekkt það frá árinu 1990 þegar einstaklingum og fyrirtækjum var heimilað með lögum að framselja aflaheimildir - selja og leigja kvóta í ábataskyni  - hefur leitt til gríðarlegrar byggðaröskunar og misskiptingar og færa má rök fyrir því að þarna sé að finna eina rótina og ekki þá minnstu fyrir efnahagshruninu sem hér varð fyrir áratug.

Vaxandi áhugi

Með framsalinu og möguleikum að veðsetja óveiddan afla framtíðarinnar voru fjármunir fluttir út úr sjávarúitvegi, upp á land og síðan út fyrir landsteinana. Segja má að íslenskt samfélag hafi verið brotið með þessu kerfi og það eru þessi brot sem þarf að færa saman á ný, gera Ísland og íslenskt samfélag heilt á ný.
Allt þetta þekkja menn og vilja nú breytingar á. Ekki leikur nokkur vafi á því að áhugi á að ræða þessi mál er nú mikill og fer vaxandi. Namibíumálið, sem á sinn hátt hefur minnt á ýmsar skuggahliðar kerfis sem leitt hefur til gríðarlegrar auðsöfnunar og rökstuddum grun um alvarlega sviksemi að auki, hefur átt sinn þátt í þessum vaxandi áhuga.

Hinn blákaldi veruleiki

En undirliggjandi er svo alltaf hinn blákaldi íslenski veruleiki: Hafnir, sem áður voru fullar af bátum og iðandi atvinnustarfsemi tengd útgerðinni, eru skyndilega orðnar tómar eða nær því. Hver hefði trúað því fyrir fimmtán árum eða þar um bil, að á Akranesi – sjálfum Skipaskga – væru nú aðeins tveir bátar eftir í höfninni!
En hagnast ekki einhverjir, liggur þá næst við að spyrja. Að sjálfsögðu hagnast þau stórfyrirtæki og þeir einstaklingar sem eru að komast yfir allan kvótann og að sama skapi þau byggðarlög þar sem þeir ákveða að drepa niður fæti. En fyrir byggðarlögin er þetta ótrygg tilvera eins og Akranes er skýrt dæmi um.
Reykjanesið hefur ekki farið varhluta af áhrfum framsalskerfisins. Sé miðað við verðmæti landaðs afla árin fyrir kvótakerfið og í dag þá hefur Reykjanesbær og Suðurnesjabær misst um 9 milljarða króna út úr hagkerfi sínu. Ef bæjarbúar vildu bæta sér þetta upp og kaupa kvótann til baka myndi það kosta þá um 75 milljarða króna. Það eru áhrif kvótakerfisins í upphæðum, en áhrifin eru auðvitað miklu víðtækari, af því að um ¾ af sjávarútveginum sem alla síðustu öld var meginstoð samfélaganna á Suðurnesjum, hefur verið fluttur burt.
Þetta kemur m.a. annars fram í máli Gunnars Smára Egilssonar, blaðamanns, sem heldur inngangserindi á fyrirhuguðum fundi um kvótann í Hljómahöllinni á sunnudag.

Íslandssögunni ekki lokið

Nú þarf að vinda ofan af þessari þróun. Og það er hægt. Minnumst þess að Íslandssögunni lauk ekki með framsalslögunum árið 1990. Þá voru vissulega sett greinarskil. Nú er hins vegar komið að næstu greinarskilum, vonandi alveg nýjum kafla.
Þetta skilja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem efndu til samræðufunda um sjávarútveginn eftir að fundasyrpan Kvótann heim hófst. Þessum viðbrögðum ber að fagna.

Ekki nóg bara að tala

Það er gott að tala saman. En þó ekki án tilgangs. Við viljum tala saman til að breyta. Við viljum kvótann heim – gera Ísland heilt á ný.
Er til betri staður en gamli Stapinn í Keflavík til að ræða það? Nákvæmlega það ætlum við að gera þar, Í Stapasalnum í Hljómahöllinni næstkomandi sunnudag klukkan 12. Fundurinn er opinn og eru allir velkomnir.