Fara í efni

MEÐVIRKNI ALMANNAVARNA OG FJÖLMIÐLA

Ég styð almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld í viðleitni þeirra til að hefta útbreiðslu Covid-19 veirunnar á Íslandi. Með einum fyrirvara þó.

Ég hef leyft mér að lýsa undrun á því að þessir aðilar hafi enn sem komið er hunsað beiðni Samtaka áhugafólks um spilafíkn um að láta loka spilavítum og aðgengi að spilakössum sem augljóslega gætu borið smit. Á öllum fréttamannafundunum sem efnt er til kvölds og morgna hefur ríkt þögn um þetta málefni og af hálfu fréttamanna enginn sýnilegur áhugi að halda uppi málstað samtaka fólks sem berst gegn vanda, sem það þekkir sjálft af eigin raun, vegna ættingja sinna eða hefur kynnt sér félagslegar afleiðingar spilafíknarinnar.

Opið bréf var skrifað til dómsmálaráðherra. Engin svör, engin viðbrögð og enginn fjölmiðill sem gengur eftir þeim.
Beiðni hefur verið send almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum. Engin viðbrögð og enginn fjölmðill gengur eftir þeim.
Rekendum spilavíta og spilakassa var send beiðni um að sýna ábyrgð og loka. Engin viðbrögð (nema sprittbrúsar á búllurnar) og enginn fjölmðill gengur eftir þeim.
 
Hvað veldur þessu er mér óskiljanlegt nema ef vera skyldi meðvirkni með rekendum spilakassanna sem maka krókinn á veikindum fólks. Það eru Háskóli Íslands, Rauði kross Íslands, Slysvarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ. Í mínum huga hefur þessar stofnanir og samtök sett verulega niður.

Fyrir samtökum áhugafólks um spilafíkn tek ég hins vegar ofan og er greinilega þar í forsvari öflugt fólk sem á virðingu skilið: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/20/radherra_loki_spilakossum_vegna_koronuveiru/?fbclid=IwAR06MWEAovcm9yfNMBCV5VnvReqwfRcEqYWbvgGCbd551nQvjK2SdMJWuPI