Fara í efni

OFT SAKNA ÉG ÞJÓÐVILJANS

Ég sakna ekki Þjóðviljans vegna þess að ég telji að hann hafi alltaf haft rétt fyrir sér. Það hafði hann að sjálfsögðu ekki. Og ekki hefði ég viljað búa í landi þar sem Þjóðviljinn einn hefði borið okkur fréttir af heimsmálunum. Ennþá síður Morgunblaðið. En samt er það nú orðið þannig að nánast Moggalínan ein er við lýði í fjölmiðlum hins vestræna heims. Morgunblaðið er þannig ekkert eyland.

Fréttaveitur sem flytja okkur fréttir af heimsmálum eru að jafnaði mjög hallar undir hagsmuni vestræns kapítalisma eins og NATÓ og aðrir varðhundar þess kerfis skilgreina þessa hagsmuni hverju sinni.  Þetta hefði Þjóðviljinn réttilega kallað NATÓ línu Moggans. Nú er sú lína - þrátt fyrir stakar undantekningar -allsráðandi hér á landi. Okkur vantar sárlega mótvægið – hina hliðina eða hinar hliðarnar – því heimurinn er ekki alltaf einfaldur.

Dæmi:  Í leiðara Moregunblaðsins í dag er fjallað um Sýrlandsstríðið. Þar segir meðal annars um forseta Sýrlands:

“Það hefur verið augljós stefna Bashars al-Assads að eira engu í sókn sinni til að ná aftur öllum þeim svæðum sem hann hefur misst í átökunum í landinu. Sóknin til að ná Idlib hófst fyrir þremur mánuðum og hefur haft hrikalegar afleiðingar og leitt til þess að fjöldi manns hefur flosnað upp og er á vergangi. Hjá Sameinuðu þjóðunum er talað um mestu neyð frá því að stríðið hófst árið 2011. Eina hjálp þeirra sem verja Idlib hefur komið frá Tyrkjum, sem sendu þúsundir hermanna á vettvang. Þegar á fjórða tug tyrkneskra hermanna féll í árás sýrlenska hersins brugðust Tyrkir hart við og ótti kviknaði um að átökin myndu ágerast, ekki síst vegna þáttar Rússa í aðgerðum Sýrlendinga.”

Þarna er ekki lítið staðhæft. Hvað sem segja má um Sýrlandsstjórn þá er það þannig að erlend stórveldi réðust inn í Sýrland og hafa þar beitt fyrir sig málaliðaherjum (proxy-war) til að reyna að knésetja stjórn þessa lands. Sýrlandsstjórn er hins vegar réttlaus í vestrænum fjölmiðlum, sögð hatast við eigin þjóð eins og skilja má á leiðara Morgunblaðsins. Innrás Tyrkja, nú síðast í haust, í Rojava í norðaustanverðu Sýrlandi og ári áður í Afrin í norðvestanverðu Sýrlandi, heitir að senda hermenn á vettvang! Samt er það nú svo að svo afdrifaríkar urðu þessar heimsóknir tyrkneska hersins  “á vettvang”, að talið er að hátt í milljón manns hafi fyrir vikið hrakist á vergang.

Bandaríkjamenn hurfu með her sinn frá norðanverðu Sýrlandi síðastliðið haust sem frægt varð. Nema hvað ekki varð eins frægt að þeir skildu eftir herðlið til að gæta olíulinda “sinna”. Það þurfti hins vegar ekki að koma á óvart.
Að öllum líkindum hefði Þjóðviljinn fjallað um þessa hlið mála. Ekki get ég þó gefið mér að Þjóðviljinn hefði fjallað um Assad, böðulinn frá Hama, sem Morgunblaðsleiðari dagsins gerir einnig að umtalsefni.
Þarna þurfum við reyndar ekki á Þjóðviljanum að halda því sjálfur get ég miðlað örlítið um þann mann úr annarri átt en Mogginn gerir.
Þannig var að í hitteðfyrra var ég ræðumaður á ráðstefnu í Berlín þar sem menn komu fram með sín sjónarmið, hver úr sinni áttinni, þar á meðal, viti menn, Assad, böðullinn frá Hama. Aftur vitna ég í leiðara Morgunblaðsins í dag, þar sem fagnað er nýjasta vopnahléinu í Sýrlandi:

“Vissulega er ástæða til að fagna vopnahléinu og vona að það beri árangur, en reynslan gefur ekki tilefni til bjartsýni. Meginástæðan er sú að Assad ætlar sér meira og svífst einskis. Í hans huga eru mannslíf einskis virði og svipar honum þar til föður síns. Hafez al-Assad barði allt andóf niður af harðfylgi í valdatíð sinni. Í byrjun níunda áratugarins kviknaði andóf gegn honum og var kjarni uppreisnarmanna í Hama, fjórðu stærstu borg Sýrlands. Í febrúar árið 1982 lét Assad til skarar skríða gegn andstæðingum sínum. Ekki er víst hvað margir féllu, en talað er um allt að 40 þúsund manns. Uppreisnarhverfin voru jöfnuð við jörðu svo ekki færi á milli mála hvernig færi fyrir andófsmönnum í landinu.”

Það er rétt að hryllilegt blóðbað varð í Hama 1982 þegar Sýrlandsstjón beitti hernarðarofbeldi til að kveða niður Múslímska bræðralagið, en Sýrlandsstjórn hefur verið sú stjórn á þessum slóðum sem hefur haldið fast í veraldlegar rætur sínar og gengið hart fram gegn þeim sem hafa viljað koma á, trúarríki, “sharia” stjórnarfari eins og þarna var um að ræða.
Hvað um það, grimmdarverk voru framin í Hama og mannfall mikið, hæstu tölur eru 40 þúsund manns eins og Morgunblaðið nefnir, mun lægri tölur hafa einnig verið nefndar, allt frá einu tveimur þúsundum. Robert Fisk, fréttamaðurinn góðkunni sem ég oft leyfi mér að horfa til, nefnir tutttugu þúsund. Það skiptir hins vegar ekki öllu máli - en máli þó, í heimi missagna - hver fjöldinn var nákvæmlega. Hitt er óumdeilt að hryllilegu ofbeldi var beitt. Hershöfðinginn sem stýrði því hét vissulega Assad en hann var föðurbróðir núverandi forseta og jafnaframt, þegar hér er komið sögu, einn harðasti andstæðingur hans utan Sýrlands. Þessi maður, Rifaat al-Assad, átti þátt í valdaránstilraun árið 1984, hrökklaðist þá úr landi með illa fenginn auð og síðustu ár hefur hann reynt að steypa frænda sínum, núverandi forseta, af stóli. Hann hefur verið sakaður um að ganga erinda Saudi Araba auk þess sem hann er grunaður um stórfellt peningaþvætti. Í leiðara Morgunblaðsins er ekki um þetta rætt en blóðbaðið í Hama einfaldlega notað til áréttingar á því að núverand forseti svífist einskis enda “í hans huga …mannslíf einskis virði”!

Rússar, Íranir, Tyrkir og Sýrlandsstjórn hafa tvívegis náð samkomulagi kennt við Svartahafsbæinn Sochi, nú síðast í haust eftir innrás Tyrkja.
Samkomulagið snerist um að hrekja Kúrda Sýrlandsmegin úr nánasta umhverfi tyrknesku landamæranna og skapa þannig eins konar stuðpúða. Á móti áttu allir og þar með Tyrkir að sameinast gegn ofbeldishópum ISIS sem hrakist höfðu undan Sýrlandsher til Idlib borgar. Það sem hins vegar gerðist var að Tyrkir eru sakaðir um að leika sama leikinn og í Afrín í kjölfar innrásar þeirra þar, flytja íslamistana inn á svæði brottrekinna Kúrda, gyðinga og kristinna manna en Evrópuríki sjálfum sér lík, þar á meðal Þýskaland, hafa boðist til að veita aðstoð til uppbyggingar þar. NATÓ reynir fyrir sitt leyti að "hjálpa" með því að greiða götu vopnasendinga til Tyrklands, væntanlega til brúks "á vettvangi"!

Ekki hef ég séð Guðlaug Þór, utanríkisráðherra Íslands, spurðan út í þetta og þá einnig hvernig blessunarorð íslenskra stjórnvalda á nýafstöðnum NATÓ fundi í Brussel, þar sem stuðningi var lýst við ofbeldi Tyrkja, hafi verið orðuð.  

Það er nánast segin saga að þegar “alþjóðasamfélagið” kallar saman sín “öryggisráð” og vill “tafarlaust vopnahlé” þá er sá aðilinn, sem ekki dansar eftir flautu heimsauðvaldsins, að ná árangri en “frelsishetjur”  þeirra Merkel/Johnsons/Macrons/Trumps/Erdogans og viðhlæjenda þeirra að bíða lægri hlut.
Gildir þá einu hver sannleikurinn er. Í þessum heimi móta hagsmunirnir hann.

Ég sakna þess að fjölmiðlar lýsi ekki inn í þennan grimma hagsmunaheim og þá úr fleiri áttum en einni. Það er þess vegna sem ég sakna Þjóðviljans.

Nýlegur pistill um skylt efni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/einfoldun-i-bodi-sjonvarpsins-eda-eitthvad-enntha-verra