Fara í efni

VERUM JÁKVÆÐ!



Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14/15.03.20.
Við eigum ekki að vera jákvæð í þeim skilningi að mælast jákvæð eins og það er kallað þegar fólk greinist  með sjúkdóm eða veiru eins og kórónaveiruna. Því færri jákvæðir - alla vega mjög jákvæðir - í þeim skilningi, þeim mun betra. Að sjálfsögðu.

Hins vegar þurfum við á jákvæðni að halda gagnvart fólki sem er að gera allt það sem í þess valdi stendur til að vernda heilsu okkar. Þar er ég að sjálfsögðu að tala um heilbrigðisyfirvöld og stjórnendur almannavarna.
Þeirra hlutverk er ekki auðvelt þegar við er að eiga veiru sem alls staðar virðist geta smeygt sér og smogið. Sú spurning hlýtur þá að vakna að hvaða marki forræðishyggja sé æskileg, hve langt yfivöldin geti gengið í því að loka fólk inni, jafnvel loka heilum löndum.

Ekki er þetta orðið eins slæmt - ekki reyndar saman að jafna - og þegar forseti Kína kom hingað um árið og Falung Gong samtökin kínversku vildu mótmæla mannréttindabrotum í heimalandi hans. Þetta var sumarið 2002. Þá var gripið til þess ráðs, væntanlega að tillögu hins kínverska gests, að snúa öllu skáeygu fólki frá við brottför flugvéla á leið til Íslands, en þeir sem sluppu í gegn voru settir í fangabúðir í Njarðvík sem þar voru opnaðar í skólahúsnæði.
Ekki hefur mönnum þótt þetta gott til afspurnar og viljum við flest helst gleyma þessari meðferð á gestum okkar, hvort sem þeir vildu mótmæla forseta Kína eða voru hingað komnir til að halda fyrirlestra í Háskóla Íslands en höfnuðu í fangelsi í Njarðvík eins og dæmi munu vera um.

Innilokun fólks nú er að sjálfsögðu af allt öðrum toga og til marks um árvekni íslenskra yfirvalda.
Sem dæmi um markviss vinnubrögð þeirra má í fyrsta lagi nefna að hér mælast hlutfallslega fleiri jákvæðir en í flestum löndum, ekki vegna þess að sú sé raunin endilega, heldur hins að hér er betur fylgst með þeim sem koma til landsins og gætu verið smitaðir. Fyrir þetta fá íslensk yfirvöld plús í kladdann.

Síðan er ástæða til að hrósa yfirvöldunum fyrir yfirvegaða herstjórnarlist í viðureiginni við Kóronaveiruna. Íslendingar grunaðir um að geta borið veiruna eru lokaðir inni en útlendingar sem hér eru tímabundið gestir fá að ganga lausir en með varnaðarorðum. Þeir verða að öllum líkindum horfnir af landi brott þegar og ef þeir á annað borð veikjast. Hugsunin skilst mér vera sú að fari svo sem allt stefnir í, að veiran komi til með að breiðast út hér á landi, þrátt fyrir allar fyrirbyggjandi ráðstafanir, þá getum við alla vega gert okkar til að þjóðin veikist ekki öll í einu eða svo hægt að heilbrigðiskerfið fái ráðið við vandann. Veikist allir eða mjög mörg okkar á sama tíma gætu varnir kerfisns hreinlega hrunið.

Það sem við, almenningur, getum gert í þessu stríði við vágestinn, sem vissulega má kalla svo, er að taka viljann fyrir verkið og leggja jákvæðan skilning í það sem gert er af hálfu fólks sem er vakið og sofið í því að standa vörð um heilsu okkar. Síðan þurfum við að spyrja um eigin ábyrgð, hvað við getum lagt af mörkum hvert og eitt okkar. Þótt ekki séu allir á eitt sáttir í þessu frekar en öðru, þá er það engu að síður staðreynd að samstaða fólks er mikil og þeim mun meiri er hún eftir því sem staðan verður alvarlegri.

En gagnrýni má að sjálfsögðu heyrast og á að heyrast, enda er uppbyggileg gagnrýni jákvæð. Þegar stjórnvöld grípa til efnahagsaðgerða vegna samdráttar og kreppu er mikilvægt að þær aðgerðir þjóni hagsmunum almennings, það verði útgangspunkturinn, ekki hagsmunir fjármagns.
Þar eigum við dæmi sem hræða en líka dæmi um hið gagnstæða. Af þeim þarf að læra.
Með öðrum orðum: Verum jákvæð!