Fara í efni

Í BOÐI ÍSLANDS

Í tilefni þess að menn gleðjast yfir því að okkur skuli hafa verið færðar þær gleðifréttir – “… sú frétt var að berast…” að Boris Johnson skuli vera kominn út af gjörgæslu þá legg ég til að við tökum okkur þó ekki væri meira en tíu mínútur til að hugsa út í þvingunaraðgerðir sem ríkustu þjóðir heims beita þau fátæk ríki sem enn þrjóskast við að knékrjúpa þeim, ég nefni Venesúela, Sýrland … en ríkin eru fleiri.

Í lesendabréfi sem ég birti á síðunni í dag er vakin athygli á því að læknar í Sýrlandi segja refsiaðgerðirnar torvelda baráttuna gegn kórónaveirunni. https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/vidskiptathvinganir-gera-stridsthjadum-thjodum-erfidara-ad-bregdast-vid-koronaveiru. Sama er uppi á teningnum í Venesúela og víðar þar sem ríki heimurinn telur þörf á að að knýja fólk til undirgefni.

Spurt er hvort Íslendingar taki þátt í refsiaðgerðunum. Það gera íslensk stjórnvöld svo sannarlega eins og sjá má hér:   

https://www.stjornarradid.is/verkefni/utanrikismal/lagamal/thvingunaradgerdir/

Að vísu er skýrt tekið fram að við kaupum ekki helstu útflutningsvörur en einnig er vísað í  viðskipti með vörur sem gætu verið notaðar til einhvers konar bælingar. Þessi framsetning villir þó sýn. Þetta eru nefnilega áþekkar skilgreiningar og notaðar voru gegn Írak þegar svo var þrengt að því ríki að talið er að leitt hafi til þess að hálf milljón barna týndi lífi – var drepin.

En hver á frumkvæðið að þessum þvingunaraðgerðum?
Það skyldi þó aldrei vera sá sem sprengdi í Hiroshima og Nagasaki?  

Jú, mikið rétt, Íslendingar eru alltaf mættir þegar húsbóndinn kallar, látnir fylgja BNA, NATÓ og gömlu/nýju nýlendurríkjunum í ESB; eins útreiknanlegt og að rófan fylgir hundinum.

Hvernig væri að láta illan veirusjúkdóm verða okkur tilefni til að hugsa þessa aumkunarverðu fylgispekt upp á nýtt? Hætta að dilla rófunni í von um bein eða klapp á kollinn; veita þess í stað þurfandi  hjálparhönd, hugsa til þeirra sem eiga sárast hlutskipti, en hirða minna um það fólk sem ætlar sér drottnunarhlutverk í heiminum.

Í þeim síðari hópi eigum við ekki að vera. En þó erum við þar.
hundur með bein.JPG