Fara í efni

KALLAÐ EFTIR LEIÐINLEGUM STJÓRNMÁLAMÖNNUM!

Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar umhugsunarverða grein í Fréttablaðið á skírdag. Titillinn er í spurnarformi: Popúlismi eða alvörugefin pólitík?

Og niðurstaða greinarhöfundar er þessi: “Í öllum löndum blasa við mestu alvörutímar í pólitík eftir lok seinna stríðs. Og það verður ekki unnt að ætlast til þess að pólitík verði skemmtileg. Kannski þurfum við stjórnmálamenn, sem þora að vera leiðinlegir.”

Í greininni kemur fram að Þorsteinn, í samhljómi við breska tímaritið Economist, telur sig hafa fundið slíkan óskakandídat, nefnilega nýjan formann Verkamannaflokksins breska, Keir Starmer, en um hann hafði Economist einmitt skrifað grein undir fyrirsögninni: “Maðurinn sem þorir að vera leiðinlegur.”

Ég hef aldrei heyrt rætt um það að Jeremy Corbyn, sá sem þröngvað var til að segja af sér formennsku í Verkamannaflokknum, hafi verið sérlega skemmtilegur maður, hef reyndar ekki hugmynd um það, hallast frekar að því að hann sé í alvörugefnari kantinum, en hitt er sennilega rétt hjá þeim Þorsteini og Economist að nýi formaðurinn, Keir Starmer, sé ekki neinn sérstakur skemmtikraftur, kannski alveg hundleiðinlegur og þar með sniðinn í framvarðarsveit stjórnmálanna.

Nýi formaðurinn er að sjálfsögðu pólitískur en á þann hátt að vera vel stofutækur hjá Economist í London og Viðreisn í Reykjavík. Honum hef ég séð lýst sem nýjum Tony Blair, mínus persónutöfrar (karismi) þess síðarnefnda, nokkuð sem ég kom reyndar aldrei auga á hjá Blair en það er sennilega mitt vandamál.

Í BNA hefur “öfgamaðurinn” Bernie Sanders hlotið sömu örlög og Corbyn og þurft að víkja fyrir hinum “hófsama” Jo Biden. Sá er vel tengdur inn í heim múltímilljóneranna á Wall Street.

Eins og við var að búast er Keir Starmer settur í hóp hinna “hófsömu” eins og Jo Biden.

Það er rétt hjá Þorsteini Pálssyni og hinu hægri sinnaða breska tímariti að við erum á leið inn í eldfima tíma. En er það slæmt? Er ekki gott ef almenningur vill gerast pólitískur á róttækan hátt; vill endurmeta þær aðferðir sem ekki hafa dugað og reyna nýjar leiðir?

Varðstöðumenn kapítalismans eru á nálum, enga popúlista segja þeir og vilja þar með vísa til þeirra sem haga seglum eftir vindi. En hvað einkennir valdastéttir samtímans annað en einmitt slík siglingatækni? Og kannski aldrei meira en nú þegar beðið er um afstöðuleysi á meðan kapítalisminn er á gjörgæsludeild!

Er hægt að ganga lengra í hentistefnu?