Fara í efni

LANDAKAUPAFRUMVARP VELDUR VONBRIGÐUM !

Þúsundir Íslendinga hafa skrifað undir áskorun um að stemma stigu við uppkaupum auðmanna á landi. Undirskriftasöfnun hófst árið 2018 að frumkvæði Jónu Imsland, konu án nokkurrar stofnunar á bak við sig, aðeins knúin áfram af áhuga og hugsjón. 

Um þetta framtak Jónu Imsland hef ég stundum skrifað, lýst aðdáun á framtaki hennar og dugnaði og tekið undir með henni.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/seljum-ekki-island-1

https://www.ogmundur.is/is/greinar/akall-jonu  

Undir áramótin síðustu var okkur sagt að senn kæmi fram stjórnarfrumvarp á Alþingi sem myndi reisa skorður við eignasöfnun auðmanna á landi. Þessu var fagnað þótt seint væri.

Í febrúar birtust frumvarpsdrög á vef stjórnarráðsins. Í þessum drögum var fyrst og fremst fjallað um skráningarskyldu og sýnileika en minna fór fyrir banni við eignasöfnun auðmanna. Slíkt bann var reyndar ekki að finna í frumvarpsdrögunum!

Þessi drög ollu ekki aðeins mér vonbrigðum, heldur almennt því fólki sem krafist hafði lagabreytinga sem bönnuðu eignasöfnun auðmanna á landi. Samkvæmt drögunum skyldi nú algerlega horfið frá þeirri leið sem ég hafði áður markað sem innanríkisráðherra með reglugerð og fumvarpi sem ég lagði fyrir Alþingi 2013. Þar var kveðið á um að landeigendur þyrftu að vera íslenskir ríkisborgarar eða eiga lögheimili á Íslandi. Það skuli vera hin almenna regla en þó sé unnt að nýta ákvæði EES í atvinnulegu tilliti. Þetta töldu lögfræðilegir ráðgjafar innanríkisráðuneytins og sérfræðingar í EES-rétti, sem ég leitaði til, að væri hægt að gera kröfu um á grundvelli EES-réttar. Þessu hafnaði hins vegar eftirmaður minn í embætti, Hanna Birna Kristjánsdóttir. Lagði hún frumvarpið til hliðar og afnam reglugerðina. Það eru óneitnalega vonbrigði að núverandi ríkisstjórn haldi sig við þá stefnu. 

(https://www.ogmundur.is/is/greinar/umsogn-um-frumvarp-um-eignarrad-og-nytingu-fasteigna)

Frumvarpið hefur nú verið heflað lítillega til frá febrúardrögunum – ekki þó svo að skipti nokkru teljandi máli. Frumvarpið eins og það stendur myndi ekki, ef samþykkt yrði, standa í vegi fyrir því að auðmenn haldi áfram að safna til sín jörðum og sá umsvifamesti til þessa, breski milljarðamæringurinn Radcliffe, gæti fengið leyfi til að safna fleiri jörðum en hann þegar hefur á hendi, geti hann sýnt fram á að hann hafi þörf fyrir landið vegna “fyrirhugaðra nota.”

Því miður verður þetta frumvarp vart skilið öðru vísi en tilraun ríkisstjórnarinnar til að þvo hendur sínar undir því yfirskini að nú verði upplýsingar um landakup gerðar sýnilegar - hið fræga gagnsæi! - en eftir sem áður geta auðmenn, erlendir sem innlendir, haldið áfram að að safna til sín jörðum, þurfa ekki einu sinni að spyrja um leyfi fyrr en þeir eru að fara fram yfir eignarhald á fimm fasteignum, eða1500 hekturum lands. Jafnvel þegar kaup eru orðin leyfisskyld þá eru skilyrðin þannig að þau hefðu ekki komið í veg fyrir það sem þúsundir Íslendinga hafa verið að mótmæla með undirskriftum sínum á undanförnum árum.  

Þetta er dapurlegra en orð fá lýst!