Fara í efni

ÓSKIR UM GLEÐILEGA PÁSKA

Fjölmiðlar sýna margir hverjir sínar bestu hliðar á páskum. Það hefur Ríkisútvarpið jafnan gert. Ekki er verra þegar tínt er til eldra efni þótt mikilvægt sé að viðhalda framleiðslu á gæðaefni. Megas og Ævar Kjartansson voru góðir á föstudaginn langa, sá fyrrnefndi með sína túlkun á passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Frábærir listamenn komu þarna að ásamt kyngimögnuðum Megasi. Þessi sjónvarpsupptaka frá 2014 var þess virði að endutaka og ekki í síðasta sinn! Það má bóka.

Þá var einnig vel við hæfi að endurtaka þátt Ævars Kjartanssonar frá 2011 þar sem hann kryfur atburði páskanna í Biblíunni, “Krossfestur, dáinn og grafinn, um pólitíska aftöku í Jerúsalem árið 30”. Ævar var ekki einn á ferð en uppleggið var hans og eins og jafnan brást hvorki honum né viðmælendum hans bogalistin.

Útvarpið var með Jóhannesarpassíu Bachs í nýstárlegri útsetningu Benedikts Kristjánssonar tenórsöngvara, upptöku frá Hallgrímskirkju frá því í mars síðastliðnum. Vel til fundið, þótt einnig hefði mátt sjónvarpa beint frá Tómasarkirkjunni í Leipzig þar sem við sjáum Benedikt einnig í mynd sýna okkur hvílíkur listamaður hann er:

https://www.arte.tv/de/videos/097176-000-A/johannes-passion-aus-der-leipziger-thomaskirche/?fbclid=IwAR3GQ7ats9dNYdp8oguooh63C1jl3MEwwvVFPHn0pS-CfANbo43Hlk1SJa0

Margt fer ég sem aðrir eflaust á mis við í dagskránni, en ætla að fylgjast með páskadagsheimsókn til Víkings Heiðars Ólafssonar uppúr hádegi. Það er mikið gleðiefni að fylgjast með þeim stórkostlega og geðþekka listamanni.

Lesendum síðunnar færi ég góðar óskir og kveðjur á páskum.
Jóhannesar passía.JPG