Fara í efni

SA VERÐI EKKI LÁTIÐ KOMAST UPP MEÐ AÐ AFNEMA LÝÐRÆÐIÐ

Í kjölfar bankahrunsins árið 2008 reyndist erfitt að fá lífeyrissjóðina til að koma til móts við þá félagsmenn sína, sem tekið höfðu lán hjá sjóðunum, til að skera niður verðbætur og vaxtakostnað svo forða mætti fólki frá því að missa heimili sín. Forsvarsfólk sjóðanna, bæði úr röðum atvinnurekenda og launafólks, klifaði á að ekki mætti hrófla við eignarrétti sjóðsfélaga, nokkuð sem mér alla vega var óskiljanlegt því um það eitt var að ræða að lífeyrissjóðirnir gæfu eftir hluta af ávinningi sínum af verðtryggðum raunvaxtakjörum.

Nú hins vegar ætlast Samtök atvinnulífsins, SA, til þess að ASÍ ákveði rétt si svona að hafa af fólki umsamdar greiðslur í lífeyrissjóði, sem að sjálfsögðu myndi skerða lífeyrisréttindi, og auk þess falla frá umsömdum launahækkunum, kjörum sem voru umsamin og greidd atkvæði um.

Slíka skerðingu hafa forsvarmenn atvinnurekenda og launafólks ekki heimild til að samþykkja. Þeir geta skert sín eigin laun en ekki samningsbundin kjör annarra, nema að slíkt sé borið undir félagsmenn í atkvæðagreiðslu. Eitt er víst að þetta er ekki ákvörðun sem verður tekin innan veggja húss atvinnulífsins, reyndar heldur ekki á skrifstofum verkalýðsfélaga.