VÆNTUMÞYKJA Í GARÐ VIGDÍSAR

Vigdís.JPG

Vigdís Finnbogadóttir, sem á stórafmæli í dag, níræð, sagði í útvarpsviðtali í morgun að sér fyndist hún ekki vera gömul.
Það finnst mér ekki heldur. Þykist ég vita að á meðal þjóðarinnar sé það viðhorf almennt ríkjandi að Vigdís sé síung. Því veldur brennandi áhugi hennar á samtímanum sem hún hefur einstaskt lag á að flétta saman við menningarrætur þjóðarinnar.      

Dagskrá Sjónvarpsins Vigdísi til heiðurs var til fyrirmyndar, fjölbreytt, falleg og endurspeglaði vel væntumþykju þjóðarinnar í garð Vigdísar.

Sérstaklega gladdi það mig þegar menntamálaráðherra tilkynnti um nýstofnaðan verðlaunasjóð sem kenndur yrði við Vigdísi Finnbogadóttur og væri honum ætlað að veita árlega verðlaun einstaklingi sem brotið hefði blað með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum á sviði tungumála. Að þessu standa auk íslenskra stjórnvalda, Háskóli Íslands og stofnun Vidgísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands í dag kom fram að fyrstu verðlaunin úr sjóðnum gengju til færeyska málvísindamannsins, kennarans og útgefandans, Jonhards Mikkelsens.

Í sjónvarpsdagskránni til heiðurs Vigdísi var sýnt þegar Benedikt Jónsson, sendiherra, afhenti Jonhard Mikkelsen verðlaunin. Verðlaunahafinn sagði örfá orð, nógu mörg þó til að áhorfandinn skildi hve vel hann var að viðurkenningunni kominn. Það þykist ég vita að afmælisbarninu hafi einnig þótt, enda án efa haft á því skoðun hver skyldi hljóta fyrstu verðlaunin úr sjóði sem kenndur verður við hennar nafn.

Ég tek undir með öllum þeim sem færa Vigdísi Finnbogadóttur hlýjar kveðjur í tilefni dagsins.

Fréttabréf