Fara í efni

VERÐTRYGGING SEM SYNDIR Í SJÓ OG GRÆR Í TÚNI


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11/12.04.20.
Í bankahruninu fyrir rúmum áratug tapaði norski olíusjóðurinn, bakhjarl norska ríkisins og einn sá öflugasti sinnar tegundar í heimi, stórum hluta af eignum sínum. Íslensku lífeyrissjóðirnir töpuðu líka grimmt. Svo náði kapítalisminn sér á strik og eftir að kyndarar neysluhagkerfisins höfðu fýrað vel upp í nokkur ár voru allir búnir að ná sér. Braskarar græddu og grilluðu á ný sem aldrei fyrr.  

Í verðbólgufári sem iðulega kom upp á öldinni sem leið hugkvæmdist mönnum að verðtryggja þær stærðir sem þótti skipta máli að héldust óhreyfðar að verðgildi, nefnilega launin og lánin og þar með sparifé fólks. Meðan þessa naut við hækkuðu umsamin laun í samræmi við verðlagsþróun og lánin að sama skapi. Það sjónarmið varð fljótlega ofan á að þetta fyrirkomulag skrúfaði upp verðbólguna og kom að því að verðtrygging launa var afnumin með lögum en illu heilli ekki vísitölubinding lána. Við þetta var rekið upp ramakvein í þjóðfélaginu og talað um misgengi lána og launa. Sjálfur var ég í þeim kór.

Allar tilraunir til að setja þak á vaxtakostnað komu fyrir ekki og varð vaxtabyrði lána að meiri háttar meinsemd.

Svo kom hrunið 2008. Þá hefði þurft að aftengja vísitöluna þegar í stað. Hið sama á við nú. Ekki vegna þess að við höfum vissu fyrir verðbólguskoti á næstunni, það er nokkuð sem enginn veit. Heldur vegna hins að í hruni felur verðtrygging fjármagnsins í sér aftengingu við hverfulan veruleikann. Verðtryggingin þýðir nefnilega að fjármagnið skuli halda verðgildi sínu án tillits til veruleikans í samfélaginu.

Og hver er hann? Hann er sá að atvinnustarfsemi, sem byggir á eftirspurn sem ekki er lengur til staðar, veitingastaðir, hótel, ferðafyrirtæki, hárskerar, iðnaðarmenn í ýmsum greinum, söfn, verslanir og margvísleg  þjónustufyrirtæki, fær engar tekjur, meðal annars til að greiða afborganir af lánum sínum. Tekjur launafólks rýrna að sama skapi. Með öðrum orðum, allar þessar efnahagsstærðir rýrna. Það þarf fjármagnið að gera líka. Einboðið er að við þessar aðstæður eiga vextir að liggja undir almennri verðlagsþróun auk þess sem afborganir verði frystar hjá heimilum og fyrirtækjum sem ekki eru aflögufær. Um fyrirtækin sem enn eru að borga út hundruð milljóna í arð og heimilin sem eru að taka við slíkum greiðslum gegnir öðru máli.   

Ég var sammála forseta Alþýðusambandsins sem neitaði að fallast á að rýra lífeyrissjóðina með því að draga úr greiðslum til þeirra. Hvorki talsmenn launagreiðenda né viðsemjenda þeirra í verkalýðshreyfingunni hafa leyfi til slíkra ákvarðana fyrir hönd félagsmanna sinna nema þá að um væri að ræða lið í allsherjar víðtækum neyðarráðstöfunum eða samningum um uppstokkun á kerfinu.

Ég er líka sammála þeim verkalýðsleiðtogum sem beina gagnrýnum sjónum að lífeyriskerfinu og vilja endurskoðun á því. Það er löngu tímabært að hverfa, alla vega að hluta til, frá sjóðsmyndunarhugsuninni og horfa til gegnumstreymis um ríkissjóð, einnig að hluta til.

Veikleikar sjóðsmyndunar eru tvenns konar. Lífeyrissjóðirnir kynda undir þensluþörf kapítalismans, róa undir markaðsvæðingu og einkavæðingu, sífellt gráðugri að komast inn í ný beitilönd fyrir fjárfestingar sínar.
Hin ástæðan er þessi: Sú hugmynd að hægt sé að geyma peninga óháð efnahagsumgjörðinni er blekking þegar til langs tíma er litið.

Ef veiran sem nú hrjáir okkur lokar heiminum í langan tíma þá gæti komið að því að enginn ræði lengur um réttindi í lífeyrissjóðum, því þá verði slíkir sjóðir hreinlega ekki til í þeirri mynd sem við þekkjum þá, bara tölur á blaði. Atvinnulífið yrði ekki í stakk búið til að geyma þessa peninga þannig að þeim yrði skilað með þeirri ávöxtun sem lífeyrissjóðirnir reiða sig á.

Við svo búið kæmum við til með að horfa til þeirrar verðtryggingar sem einni er á að treysta. Hana er að finna í þeim verðmætum sem við sköpum með hugviti okkar við þær aðstæður sem við búum við hverju sinni, sem vel að merkja mega ekki byggja á stöðgugri þenslu; með nytjum á landinu og svo að sjálfsögðu þeirri auðlind sem syndir í sjónum í kringum það.

Matvælaauðlindin til lands og sjávar er sú verðtrygging sem enginn mun lengur leyfa sér að fúlsa við enda eina alvöru trygging okkar fyrir lífsviðurværi.
Bændurnir sem yrkja landið veita okkur öryggi og fiskurinn í sjónum er auðlindin sem hefur byggt upp Ísland. Þakka skal að sú auðlind er í eigu okkar allra. Nú er að finna leiðir sem tryggi að hún nýtist samfélagi okkar sem best. Því á endanum ræðst afkoma okkar af því hvernig okkur reiðir af sem samfélagi.
Sú hugsun er ekki ný af nálinni. Hún er gömul – en sígild.