Fara í efni

PRÓFSTEINAR Á SAMSTÖÐU


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09/10.05.20.
Þegar saman fer sótthræðsla og sérgæska verður til afl sem hefur sýnt sig að getur orðið gróðahyggju og kapítalisma yfirsterkari. Kovidverian hefur vakið upp slíka hreyfingu á heimsvísu að allt víkur fyrir henni. Hver hugsar um sig, einstaklingar og ríki. Allir loka að sér. Hér standa fáir Íslendingum á sporði.

Eflaust má færa fyrir því rök að kalla þetta samstöðu.

En þessi tegund samstöðu getur orðið varasöm. Macron Frakklandsforseti er nú í góðum málum að því leyti að hann getur hreinlega bannað mótmælendum í gulum vestum með kröfur á hendur stjórnvöldum ekki aðeins að mótmæla, heldur að vera yfirleitt á ferli. Í Ungverjalandi styrkir stjórnlyndur forsætisráðherra sig í sessi og víðast hvar er gagnrýnin hugsun litin hornauga. Valdið er valdað í bak og fyrir. Fær til þess ótakmarkaðan stuðning þeirra sem telja sér vera ógnað. 

Ekki svo að að skilja að samstaða sprottin af hræðslu og eigingirni geti ekki orðið til góðs. Það getur hún tvímælalaust. Þegar það rann upp fyrir dómurum í Old Bailey dómsréttinum í London um miðbik 19. aldar að þeir veiktust af taugaveikibakteríunni engu síður en fangarnir sem þeir réttuðu yfir og þegar borgarastéttin skildi að henni stæði prívat og persónulega ógn af opnum holræsum í fátækrahverfum  borganna, því kóleran gerði sér ekki mannamun, þá gerðist hún hliðholl afskiptum ríkis og sveitarfélaga í þá veru að tryggja hreint vatn, skolpræsi og löggæslu til að gæta eigna sinna og öryggis. Eiginhagsmunir ráðandi stétta urðu þannig þess valdandi að afskiptaleysisstefnu kapítalismans, sem verið hafði í hávegum höfð á öldinni öndverðri, var hafnað – um sinn, eða þar til reynt var að enduglæða inntak hennar rúmlega hundrað árum síðar undir merkjum “nýfrjálshyggju”.

En hverjir eru þá prófsteinar á þá tegund samstöðu sem er spottin af annarri hvöt en hinni eigingjörnu og sjálfselsku?

Það er væntanlega þegar við þurfum að leggja eitthvað af mörkum sjálf til að rétta hlut þeirra sem eiga við erfiðleika að stríða.

Í þessu samhengi mætti spyrja hvort við værum reiðubúin að endurstokka allt kjaraumhverfi okkar og jafna kjörin í þjóðfélaginu í alvöru þannig að sá sem minnst fengi í sinn vasa væri aldrei með minna en þriðjunginn af því sem sá hæsti fengi í sinn hlut? Ef forstjórinn og forsetinn fá þrjár milljónir skuli öryrkinn fá milljón. Værum við tilbúin að sýna samstöðu um þetta, jafnvel eftir að illar veirur hafa kvatt?

Enn mætti spyrja að gefnu tilefni hvort við séum tilbúin að láta fé af hendi rakna úr eigin vasa eða úr okkar sameiginlegu sjóðum til stofnana og samtaka sem við viljum vel, Háskóla Íslands, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, SÁÁ og Rauða krossins, í stað þess að láta fólk haldið spilafíkn halda í þeim lífinu? Ætlum við að fara að óskum Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hvetja stjórnvöld til þess að láta ekki opna spilakassa og spilasali að nýju?

Værum við tilbúin í veirulausu landi að sameinast um gerbreytta stefnu í umhverfismálum, stefnu sem reyndi á okkur öll, hvert og eitt okkar, um breyttan lífsstíl, breyttar neysluvenjur, hófsamari og þurftaminni? Er ég þá ekki að tala um gróðursetningu, sóðaskap okkar til syndaaflausnar.

Annars er ég bjartsýnn á hið síðastnefnda. Ekki vegna þess að ég trúi því að göfuglyndi færi okkur á þennan reit heldur vegna hins að þess sé ekki langt að bíða að það renni upp fyrir okkur að ef ekki verði grundvallarbreyting á framangreindum nótum þá muni neyslufrekja kapítalismans ganga af Móður Jörð dauðri. Nema að hún snúist sjálfri sér til varnar og þurrki okkur út. Þegar er hún farin að minna á tortímingarmátt sinn.

Hver veit nema kalt mat eigi eftir að sannfæra mannkynið um að það borgi sig af eigingjörnum ástæðum að hlíta ákalli náttúrunnar.