Fara í efni

UPPVAKNINGUR FRÁ KALDA STRÍÐINU MINNIR Á AÐ KOSNINGAR NÁLGAST

Ömurlegt er að fylgjast með leiksýningunni í kringum Helguvíkurhöfn. Gamall kaldastríðsdraumur um herskipahöfn í Helguvík birtist landsmönnum nú sem uppvakningur.
Vakinn upp því draugurinn þjónar tilgangi.

Sjálfstæðisflokkurinn segir að gera verði allt til að “vernda landið” og ef til þess þurfi herskipalægi þá sé það sjálfsagt mál. Skilja má að Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, hafi sagt að þessu myndi fylgja mikið dollaramagn og ófá störf – alveg eins og í gamla daga enda blóðið farið að renna í Íslenskum Aðalaverktökum og þegar sjáanleg merki þess að gamla Varðberg hafi fundið tilveru sinni tilgang á ný í kyndiklefa stríðsæsinga og ótta.

Pólitíkusar á Suðurnesjum með flokks-fálkann í barmi sínum, segja það vera ábyrgðarlaust í vaxandi atvinnuleysi að hafna góðu boði þeirra Trumps og Pompeos (sem enginn hefur séð vel að merkja), reyndar ekki bara ábyrgðarlaust heldur fullkomlega óskiljanlegt. Og ég sé ekki betur en Sigríður Andersen, fyrrum dómsmálaráðherra, sé komin í fjörið og fleiri eflaust á leiðinni. Þjónar Sjálfstæðisflokknum vel. Þjóðinni hins vegar illa, því þetta tal sundrar; þegar farið að gera það.

Nóg er - og miklu meira en nóg! - að ríkisstjórnin skuli hafa fallist á stórfellda hernaðaruppbyggingu Bandaríkjanna og NATÓ í Keflavík. Hún er þegar hafin.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/allt-eins-og-adur-hermang-i-bodi-rikisstjornar

Þessi hervæðing Íslands hélt ég að yrði VG erfið. En þar hefur varla heyrst múkk til andófs fylgispektinni við NATÓ og þá Trump og Pompeó. Hlýtur samt að trufla einhverja. Þess vegna er Helguvíkurdramað sem himnasending fyrir VG. Nú hafi hnefinn aldeilis verið settur í borðið – þið vitið, blikk, blikk, eða þannig.

Í mínum huga er þetta alvarlegra en svo að stuðningur Íslands við stórfellda hernaðaruppbyggingu BNA og NATÓ verði afgreiddur í leikriti af þessu tagi. Herskipahöfnin er stærri biti en VG hefði getað kyngt. Þó er ég ekki viss eftir það sem á undan er gengið og allt það sem ákveðið hefur verið og er í farvatninu.

Herskipahöfn hefði hins vegar hugsanlega getað vakið þjóðina af þyrnirósarsvefni sínum.

Hugsanlega.

En nú eru hins vegar allir sælir.
Allir að standa sig.

(Myndin er fengin á vef hins frábæra Galdrasafns á Hólmavík og alls ótengd þessum pistli að undanskildum hugrenningartengslum sem eru ærin.)