Fara í efni

VERÐUR LÓAN SPURÐ?

Ég les að norskir fjárfestar vilji eignast vindinn á Íslandi; einnig íslenskir vindfangarar og svo þeir norsku og íslensku í samstarfi. Fleiri munu hafa áhuga. Allir vilja græða eins og fyrri daginn.

Ég heyrði ekki betur en að nú væru í bígerð á nokkrum stöðum á Íslandi tugir vindmyllugarða en það heitir það þegar risavöxnum hreyflum er komið fyrir á stöplum sem teygja sig til himins með það fyrir augum að fanga vindinn og láta hann framleiða raforku. Því hærri og stærri þeim mun afkastameiri. Myndarleg vindmylla teygir sig 200 metra upp í loftið. Til samanburðar er Hallgrímskirkja í Reykjavík 75 metra há.

Nú hljótum við að spyrja:

1) Þurfum við yfirleitt að framleiða meiri raforku, ég tala nú ekki um ef álfyrirtækin loka eins og þau segja að sé í kortunum?

2) Er ekki rétt að hafa innviðina, þar með talið vatn og raforku, á vegum samfélagsins og í eign samfélagsins?

3) Á prívat gróðasókn að stýra því hvernig við förum með landið?

4) Er þetta ekki mál sem kemur okkur öllum við, ekki bara einstökum sveitarfélögum, því vindmyllugarðar breyta ásýnd landsins, valda gríðarlegri sjónmengun og hljóðmengun?

5) Hver vill vindmyllu í nágrenni sitt? Og hvað með hin ósnortnu víðerni? Þið munið,
Undir Dalanna sól,
við minn einfalda óð
hef ég unað við kyrrláta för…

6) Væri ekki eðlilegt í ljósi þess hve afkastamiklir fuglamorðingjar vindmyllur eru að leita álits hjá lóunni?

Lóan.JPG