ANDLITSLAUST ANDLIT


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 06/07.06.20.
Facebook merkir í bókstaflegri þýðingu andlitsbók. Það er að sumu leyti réttnefni því á þessum samfélagsmiðli eigum við þess kost að mæta fólki augliti til auglitis. Á Facebook segja menn fréttir af sjálfum sér og öðrum og hópar og samtök fá þarna greiða leið til að koma áhugamálum og boðskap á framfæri.

Facebook er ekki eini vettvangurinn á netinu til að koma upplýsingum til skila og eiga samskipti við fólk, þarna eru Twitter og Instagram og fleiri. Svo er Youtube þar sem hægt er að bjóða upp á efni á myndböndum.

Þessi samskiptamáti hefur rutt sér til rúms á undanförnum árum með undraverðum hraða og eru margir enn að venja sig við að ráðamenn heimsins skuli velja sér þennan máta til að tala til samfélagsins og heimsbyggðarinnar allrar ef því er að skipta.

Enn minnist ég þess hve undarlegt mér þótti að heyra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að Bandaríkjafoseti hygðist nú þrengja að valdhöfum í Norður-Kóreu svo að um munaði og að hann vildi vita hvort hann mætti ekki reiða sig á stuðning leiðtoga Kína. Þannig spurði Bandaríkjaforseti, sagði fréttastofan … á Twitter í morgun.

Íslenskir ráðherrar eru farnir að hafa þennan hátt á líka, þótt tilefnin séu ekki eins glannaleg og hjá Trump forseta.

Auðvitað er ekkert við þá nýlundu að athuga að tæknin sé nýtt með þessum hætti.

Hitt er verra að á netinu gerist sitthvað varasamt. Þannig, svo dæmi sé tekið, birtast öðru hvoru frásagnir með myndum af þekktum einstaklingum þar sem látið er sem þeir séu að segja frá því hvernig við getum komist yfir milljónatugi úr upplognum gróðalindum. Oft líður dágóður tími þar til þessi blekkingarskrif eru látin hverfa.

Við erum þannig vel búin undir að meðtaka þær fréttir að átak verði gert til að uppræta ósannindi á netinu.

En einmitt þess vegna er rétt að vera á varðbergi. Því freistingin er sú og veruleikinn er sá að óþægileg gagnrýni í garð valdahafa eða valdakerfis eða einfaldlega skoðanir á skjön við ríkjandi rétttrúnað verði skilgreind sem falsfréttir, eins og valdhafar víða eru farnir að kalla alla gagnrýni í sinn garð. Í kjölfarið sætir slík gagnrýni þöggun. Í Sovétríkjunum var talað um óvini ríkisins og á ofsóknarárum McCarthyismans í Bandaríkjunum var nóg að segja um mann að hann væri kommúnisti til að honum væri neitað um orðið og hann ofsóttur. Við minnust Kópernikusar, Galileos og fleiri sem gengu á hólm við kennivald og rétttrúnað og voru fyrir bragðið leiddir fyrir rannsóknarrétt og sumir jafnvel brenndir á báli fyrir að neita að trúa því að jörðin væri flöt.

Svo er þarna margt öfganna á milli. Donald Trump er ekki alltaf sannorður. Það á reyndar líka við um forvera hans ýmsa, þótt fáir vilji vita af því. En mér varð ónotalega við þegar ég heyrði að Twitter hefði bannfært yfirlýsingu Trumps um að rafrænar kosningar væru varasamar, þær byðu upp á svindl.

Hér er á tvennt að líta. Rafrænar kosningar geta boðið upp á svindl þótt ég telji að vel megi koma í veg fyrir slíkt. Ég man eftir umræðum íslenskra alþingismanna sem voru sama sinnis og Trump án þess þó að vera félagar hans í andanum að öðru leyti.

Hitt er svo það að jafnvel þótt menn teldu að Bandaríkjaforseti hefði alls ekki rétt fyrir sér, færi þarna jafnvel með hreint fleipur og hefði auk þess stundum sagt miklu verri hluti, þá hljótum við að spyrja hver sé þess umkominn að meina honum um orðið.

Geri menn það þá er það grundvallaratriði að ritskoðandinn komi fram með andliti og kennitölu.

Að undanförnu hef ég gert nokkra “sjónvarpsþætti” sem dreift hefur verið á Facebook undir heitinu Kvótann heim. Þessir þættir hafa verið að fá vaxandi áhorf. Sá sem ég birti um síðustu helgi tók verulega flugið. Þar ræddi ég við Gunnar Smára Egilsson, blaðamann, um þróun kvótakerfisins og fjallaði ég einnig um lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um eignatengsl og síðan stjórnarskrártillögur Stjórnlagaráðs og ríkisstjórnarinnar – vissulega á ganrýninn hátt en fullkomlega málefnalegan.

Þátturinn var kominn með fimm hundruð deilingar og þrettán þúsund manns höfðu horft á hann eða litið á hann þegar Facebook skyndilega slökkti á þessum útsendingum og var allt efnið þurrkað út. Þátturinn var og er hins vegar enn aðgengilegur á Youtube og aftur hefur hann verið settur inn á Facebook. Hve lengi hann fær að vera þar veit ég ekki.

Get engan spurt. Þegar andlitssíðan vill meina þér að tjá þig er enginn til svara, allavega augliti til auglitis. Þöggunin á sjálfri Facebook er nefnilega andlitslaus.

Fréttabréf