Fara í efni

ER VERIÐ AÐ JARÐA EIGNARRÉTTINN?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 04/05.07.20.
Svona spyr þingmaður í vefmiðilsgrein nýlega. Tilefnið var frumvarp forsætisráðherra um leyfisveitingar vegna jarðakaupa. Þingmaðurinn sagði að lagasmíð sem snýr að eignarrétti varði grundvallarmannréttindi og þyrfti fyrir bragðið að fá viðhlítandi umræðu í þjóðfélaginu og á Alþingi þannig að hún fengi að þroskast.

Mikið rétt, nema hvað í þessu tilviki hefur ráðrúm til að þroskast verið nokkuð rúmt. Öll höfum við getað fylgst með fjárfestingum auðjöfra í landi og hafa sumir fjölmiðlar staðið sig vel í því að upplýsa okkur þar um á liðnum árum. Undirskriftum hefur verið safnað og hafa þúsundir krafist þess að þetta verði stöðvað.   

Alþingismenn hafa hins vegar þagað flestir hverjir og ekki sýnt málinu þann áhuga sem efni eru til eins óskiljanlegt og það nú er.  

Og nú er umrætt frumvarp orðið að lögum. Er það til ills? Alls ekki. Með því er búið í haginn fyrir gagnsærri eignaskráningu en verið hefur en þó á undarlega nærfærinn hátt gagnvart stórtækum fjárfestum. Hvers vegna skyldi ekki þykja sjálfsagt að upplýsingar liggi fyrir um allar landareignir? 

Uppi hafa verið kröfur í þjóðfélaginu um að afgerandi bann yrði sett við eignasöfnun í landi. Svo hefur ekki verið gert og hélt forsætisráðherra því ranglega fram við atkvæðagreiðslu um frumvarpið að nú hefði kalli þjóðarinnar verið svarað. Því fer fjarri!

Stærðarmörkin sem lögin kveða á um eru svo ævintýraleg að engu tali tekur. Hefðu menn þorað að horfa með djörfung til framtíðar þá hefði verið tekin ákvörðun um að binda réttinn til eignar á landi því skilyrði að eigandinn þyrfti að vera hérlendur ríkisborgari eða hafa lögheimili hér á landi og jafnframt hefði verið sett afdráttarlaust bann við fjárfestingum í landi umfram tiltekna stærð. Hefði þetta verið gert, þá hefði til sanns vegar mátt færa að kalli almennings hefði verið svarað. En svo var ekki.

En þá að eignarréttinum. Bændur sem vilja bregða búi hafa sumir lýst áhyggjum yfir því að hvers kyns takmarkanir, jafnvel krafa um að kaupandinn hlíti skipulagsákvæðum laga og reglugerða ríkis og sveitarfélaga, geti rýrt eignir þeirra. Hvort þessi lagasetning eigi eftir að hafa slík áhrif leyfi ég mér að efast um. Þó skal ég ekki útiloka að bændur sem vilja bregða búi komi til með að eiga heldur erfiðara með að ná sölusamningi við feimna milljarðamæringa sem þegar eiga tugi þúsunda hektara lands og að það kunni að hafa áhrif á markaðsvirði.

Spurning er hins vegar hvort ekki megi leysa vanda bænda, sem vilja losna við jarðir sínar í skiptum fyrir húsnæði í þéttbýli og trygga afkomu, með aðkomu ríkis og sveitarfélaga sem þá jafnframt greiddu fyrir því að fólki sem vill stunda landbúnaðarstörf sé gert það kleift. Þessi hugmynd hefur áður litið dagsins ljós og þá hjá þeim sem áhyggjur hafa af því að landbúnaðarland sé bútað niður til annarra nota en landbúnaðar og fólki þröngvað út úr atvinnugrein þar sem það helst vildi starfa. Jafnvel þau sem alast upp á landbúnaðarjörðum og vilja áfram búa, ráða iðulega ekki við að kaupa systkini sín út vegna þess hve dýr jörðin er að ógleymdum framleiðslukvótum sem einnig hafa hátt verðgildi.

Þetta hefði maður óskað að ríkisstjórn og Alþingi hefðu rætt af alvöru því þennan þátt umræðunnar þarf vissulega að þroska betur. Hitt þarf ríkisstjórn og Alþingi líka að þroska og þá með sjálfum sér en það er að þora að standa með almannahag og hrista af sér alla lítilþægni gagnvart bröskurum og ríkidæmi þeirra.

Mörg trúðum við því framan af að ríkisstjórn og Alþingi myndu reisa alvöru skorður við landakaupum og þá einnig koma í veg fyrir að eignarhald á landi og þar með auðlindum, vatni, heitu og köldu og orku svo og öllum öðrum verðmætum í jörðu, færðist út fyrir landsteinana. Í yfirráðum yfir þessum gæðum er fólgið efnahagslegt og pólitískt vald sem á heima hjá samfélaginu – hjá þjóðinni.

Milljarðamæringar og málaliðar á þeirra vegum eru orðnir talsvert fyrirferðarmiklir sem “innanbúðarmenn” í umræðu um auðlindir Íslands. Samtök ferðaþjónustu eru orðin þeirra samtök og fjárvana stofnanir ríkisins kostaðir samstarfsaðilar. Hugtakið auðvald verður sífellt skiljanlegra.

Og komum við þá aftur að eignarréttinum. Á heimsvísu nýtur sú hugsun vaxandi fylgis að aðgangur að vatni flokkist til mannréttinda og skuli heyra okkur öllum til; á Íslandi er það viðhorf ríkjandi að orkan eigi að vera okkar og í lögum um stjórn fiskveiða segir að sjávarauðlindin sé þjóðarinnar allrar.

Samt fjarar undan þessari hugsun í lögum og dómum.

Þarna fæ ég ekki betur séð en að verið sé að jarða eignarréttinn, ekki eignarrétt Ratcliffes og auðkýfinganna í Fljótunum eða Tungunum; þeirra réttar gætir ríkisstjórn og Alþingi. Öðru máli gegnir um almannarétt, yfirráðarétt þjóðarinnar yfir landi og auðlindum.
Þeim rétti er nú ógnað.
Látum ekki jarða hann.