Fara í efni

HVERNIG VÆRI AÐ HÆTTA AÐ AUGLÝSA?

Veiran er aftur kominn á kreik og miklar spekúlasjónir um hvernig skuli brugðist við. Á að herða aftur á öllum samkomubönnunum, fjarlægðarkröfunum, skimunum og jafnvel ferðabanni? Fréttir herma að Kórónaveiran blossi nú upp í þeim löndum sem ferðamenn til Íslands koma einkum frá.  

Á að meina þeim að koma til Íslands?

Hvernig væri að byrja á því að fara millileið og hætta þegar í stað að auglýsa að nú skuli allir flykkjast til Íslands; og þar með skrúfa niður í öskrinu sem skattgreiðendur eru nauðugir viljugir látnir kosta í boði ferðamálaráðherra?

Myndi það ekki flokkast undir heilbrigða skynsemi að spara skattgreiðendum hálfan annan milljarð með þessu móti?

Auk sparnaðar mætti bjarga mannorði okkar - því sem eftir er af því – og svo heilsunni. Á þvÍ síðastnefnda ætla ég ekki að hafa skoðun, alla vega hvað fjarlægðartakmarkanir og samkomubönn áhrærir, læt nægja að spyrja um skattpeninginn og mannorðið.

En er ekki svarið augljóst?