Fara í efni

ÆVAR GENGINN


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15/16.08.20.
Mín tilfinning er sú að Ævar Kjartansson, útvarpsmaðurinn frá Grímsstöðum á Fjöllum, hafi verið viðloðandi Ríkisútvarpið frá stofnun þess. Það getur þó varla verið rétt því við nánari grennslan kemur í ljós að Ævar er fæddur talsvert mörgum árum eftir að Ríkisútvarpið fór í loftið árið 1930.

Tilfinningin er samt söm, svo mikið hefur framlag hans verið til dagskrárgerðar á liðnum áratugum. Og nú er hann genginn. Ekki í bókstaflegri merkingu þess orðs heldur óeiginlegri því hann lætur nú af áratuga fastri þáttastjórn hjá Ríkisútvarinu.

Síðustu árin hefur hann annast fasta umræðuþætti á sunnudagsmorgnum sem síðan hafa verið endurteknir á komandi dögum. Þar hefur verið tekið fyrir allt milli himins og jarðar - að þessu sinni í bókstaflegri merkingu - því tekið hefur verið á jarðbundnum jafnt sem óræðari víddum tilverunnar, atvinnulífi í landinu, heimspeki, bókmenntum og trúmálum. 

Þessi samræða, þar sem hundruð ef þá ekki enn fleiri hafa verið kölluð að borði, hefur orðið merkjanlegur niður í straumi þjóðfélagsumræðunnar þótt galdur hennar hafi verið látleysi og öfgaleysi. Einstaklingar sem þekkja viðfangsefni sín í þaula hafa sett fram sjónarmið á upplýsandi hátt og þannig að við höfum komist niður úr yfirborðinu sem oftast einkennir umræðuna hér og nú.

List Ævars hefur verið í því fólgin að rýma fyrir öðrum og til að tryggja að þáttastjórnandinn færi ekki villur vegar hefur hann iðulega fengið sér við hlið og til aðstoðar einstaklinga sem búa yfir reynslu og þekkingu á því efni sem brotið skuli til mergjar hverju sinni. En stíllinn á umræðunni er alltaf Ævars. Viðmælandinn alltaf í forgrunni.

Sjálfur er Ævar Kjartansson ólíkindatól, maður mótsagna, eins og margir menn sjálfstæðir í hugsun. Hann er í miklu uppáhaldi hjá Laxá í Aðaldal en Ævar er einn af sprengjumönnunum sem björguðu henni fyrir réttum fimmtíu árum þegar virkja átti þessa náttúruperlu enn frekar en þegar hafði verið gert. Eldra fólk man hvernig virkjunardraumum í Aðaldalnum lauk, eða öllu heldur, var lokið - því alltaf eru gerendur - með dágóðum skammti af dínamíti.

Löngu seinna dúkkaði þessi róttæki og óhræddi maður frá Fjöllum upp sem guðfræðingur. Rak þá margan í rogastans. Ekki þó þau sem vissu að hann var ekki ósnortinn af því sem hann hafði kynnst sem farandverkamaður í Suður-Ameríku á þeim árum æviskeiðsins sem sálin er hvað móttækilegust því sem sáð er. Og á þessum slóðum mátti sjá að eldmóður byltingarmannsins og hins sem boðaði kærleikann voru engar andstæður. Stofnanaveldi kirkunnar tók að vísu ekki alltaf ofan fyrir þeim sem töluðu máli jafnaðar en það er önnur saga.  

Óminn af þessu röddum mátti oftar en ekki greina sem eins konar undirtón hjá útvarpsmanninum Ævari Kjartanssyni.
Eftirfarandi bar hann á borð fyrir okkur vorið 2006:
...bin Laden belongs - all, all belong. Gays, lesbians and so called straigths, all are loved, all are precious... Allir eiga samleið. Allir. Bush og bin Laden, samkynhneigðir og gagnkynhneigðir. Þetta er ein fjölskylda og í þessari fjölskyldu eiga að gilda lögmál fjölskyldunnar, þar sem hver leggur sitt fram eftir getu og hver fær eftir þörfum. Það er suður-afríski biskupinn Desmond Tutu sem talar á heimsþingi Alkirkjuráðsins í Brasilíu í febrúar síðastliðnum. Hann leggur áherslu á að stríð gegn hryðjuverkum - terrorisma - verði aldrei hægt að vinna á meðan skilyrði og kringumstæður í heiminum valda fátækt, vanþekkingu og sjúkdómum sem gera fjölskyldu guðs barna örvilnaða.
Á þessa leið skilaði Ævar Kjartansson boðskap Tutus til íslenskra útvarpshlustenda.

Og nú er Ævar Kjartansson að ljúka sínu dagsverki á Ríkisútvarpinu. Hann er vonandi ekki hættur fyrir fullt og allt. Maðurinn enn bráðungur, rétt um sjötugt.
En föstu þættirnir eru í þann veginn að renna sitt skeið.

Þá er boltinn hjá Ríkisútvarpinu. Því framhald umræðu af því tagi sem fylgt hefur Ævari Kjartanssyni um langt skeið verður að fá framhald.
Það sem ég sennilega er að reyna að segja er að þótt Ævar sé genginn í þeim skilningi sem hér hefur verið lýst þá er verkefnið að sjá til þess að hann gangi aftur – verði afturgenginn. Slíkir reimleikar á útvarpsstöð geta aðeins orðið til góðs.