LÍTIL STÓRFRÉTT EÐA STÓR SMÁFRÉTT?

stór frétt.JPG

Veit ekki alveg hvað á að segja um frétt sem biritst í Morgunblaðinu 17. júlí síðastliðinn og virðist ekki hafa vakið mikla athygli; ekki viss hvort þetta hafi verið stórfrétt að smáfrétt.

Hún fjallar um aðgengi að landinu fyrir erlent fólk, hverjir megi koma til Íslands í Covid-fári og hverjir ekki. Og hér voru það einstaklingar utan Schengen sem voru til skoðunar. Þeir mættu ekki koma hingað sem væru einfaldlega að fara í frí. Þar væru engar undantekningar gerðar sagði í fréttinni. Væru þeir í viðskiptaerindum þá gegndi hins vegar öðru máli: Ef erindið væri þess eðlis “metur starfshópur frá Íslandsstofu, atvinnuvegaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu umsóknina og gefur álit til Útlendingastofnunar”. Síðan sé það lögreglan sem taki endanlega ákvörðun en hún byggi yfirleitt ákvörðun sína á áliti sérfræðinganna. Og blaðið upplýsir ennfremur að aðkomumenn komi flestir með áætlunarflugi en sumir komi með einkaflugi.

En aftur að ströngum reglum gagnvart þeim sem ekki eru í bisniss þá væru þess dæmi að “að fólk sé dauðvona og eigi þá ósk eina að fara til Íslands. Dæmi er um slíkar aðstæður en þar hefur ekki verið hægt að gera undantekningar.”

En nú leyfi ég mér að spyrja hvort ekki sé eitthvað skrítið við þetta allt saman. Snýst þetta ekki um það hvort fólk beri með sér veiru óháð erindagjörðum? Menn eru sagðir vera velkomnir hvort sem er með áætlunarflugi – væntenlega innan um alla hina farþegana vel að merkja og þá einnig þótt þeir hósti og hnerri - eða í einkaþotu séu þeir bisnissmenn en dauðvona krabbameinssjúklingur úr Íslendingabyggðum Kanada, sem vill koma til Íslands áður en hann skilur við fái enga aðkomu. Þetta dæmi er uppdiktað af minni hálfu en gæti verið rétt enda enginn greinarmunur gerður á umsóknum sem ekki byggja á viðskiptahagsmunum!

Svo er það “starfshópurinn” sem hafnar öllum sem ekki stunda viðskipti! Kalt vatn rennur milli skinns og hörunds. Það er stutt yfir í sálarlaust kerfi þegar dómgreindin er tekin úr sambandi og “jafnræðisreglan” gerð alráð.

Kannski er stórfréttin sú að þetta skuli bara vera smáfrétt.
Ég hallast helst að því. 

 

Fréttabréf