RAGNHEIÐAR ÁSTU PÉTURSDÓTTUR MINNST

Ragnheiður Ásta Péturdóttir.JPG

Í dag fór fram útför Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur, útvarpsþular með meiru, frá Fríkirkjunni í Reykjavík. Athöfnin var áhrifarík og verður eftirminnileg eins og Ragnheiður Ásta sjálf. Ég minnist hennar nokkrum orðum í minningargrein í Morgunblaðinu í dag og fer hún hér á eftir. 
Hér á heimasíðu minn hefur Ragnheiður Ásta stundum komið við sögu og fann ég eina slíka tilvísun með leitarvél. Þar segir frá páskadagskránni í Ríkisútvarpinu árið 2006 en þar þótti mér einmitt útvapsþulurinn ekki gegna litlu hlutverki. Sjá slóð hér neðar.

Minning:
Þegar Ríkisútvarpið skartaði rödd Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur þá gat maður trúað því að útvarp hefði bæði sál og persónuleika. Hún var lifandi sönnun þess að þulur í útvarpsstöð gegnir lykilhlutverki; hvernig röddinni er beitt, hver blæbrigðin eru hverju sinni og hvernig þau eru löguð að aðstæðum, hvort kímni er til staðar, gleði eða sorg, hvernig er þagað, þetta gerir út um það hver rís undir því hlutverki. Góður þulur þarf líka að búa yfir skilningi á bæði líðandi stund og sögulegri arfleifð, menningunni, og að sjálfsögðu óbrigðulli máltilfinningu.

Ragnheiður Ásta Pétursdóttir hafði allt þetta til að bera. Manni leið vel þegar hún talaði í útvarp og hinir heyrnardaufu töpuðu aldrei þræði þegar hún las, svo skýrmælt var hún. Hún var sannkallaður listamaður við hljóðnema Ríkisútvarpsins um áratugaskeið.

Ætli það hafi verið listamaðurinn eða verkalýðssinninn Ragnheiður Ásta sem við fengum til að stýra afmælishátíð BSRB í Borgarleikhúsinu á fimmtíu ára afmæli samtakanna árið 1992? Sennilega hvort tveggja. Við vissum að hún yrði með okkur af hjarta og sannfæringu og við vissum að enginn myndi gera þetta betur en hún.

Þegar við hugsum til þessarar menningarhátíðar okkar félaganna í BSRB í febrúar árið 1992 kemur fyrst upp í hugann Ragnheiður Ásta í miðju blómahafi á gljáandi rauðum skóm í tilefni dagsins. Hún er það eftirminnilegasta úr hátíðardagskrá sem margir sýta nú að skuli ekki vera til á upptökubandi, svo frábær þótti efnisskráin. Og það var hún. Þó muna fæstir upp á hvað var boðið nema náttúrlega kynninn sem var heil dagskrá í sjálfri sér. Sú minning hverfur ekki.

Í þakklætisskyni sendum við henni þrjátíu rauðar rósir. Við vissum að henni þótti rauður litur róttækni vera við hæfi og í orðsendingu sem fylgdi blómunum þökkuðum við henni fyrir að fá að vera í samtökunum hennar.

Ragnheiður Ásta Pétursdóttur er okkur öllum eftirminnileg sem ein helsta og besta rödd Ríkisútvarpsins. Sjálfur minnist ég hennar sem samstarfskonu á Ríkisútvarpinu og ég minnist þess hve góður og traustur félagi í verkalýðsbaráttunni hún ætíð var. Um skeið var hún formaður Starfsmannafélags útvarpsins og í starfi innan BSRB var alltaf á hana að treysta enda var hún verkalýðssinni af lífi og sál. Í hennar huga hygg ég að farið hafi saman barátta fyrir hag launafólks og sósíalisma; að þessi barátta ætti að vera samtvinnuð.
Ragnheiðar Ástu minnist ég fyrir allt þetta en ekki síst mun ég minnast hennar sem góðs vinar.
Við kveðjum Ragnheiði Ástu Pétursdóttur með eftirsjá. Ég færi fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.
---------  

Slóð á framangreinda tilvísunhttp://ogmundur.is/eldri-greinar/2006/04/bush-belongs

Fréttabréf