UMRÆÐA UM HEILBRIGÐISMÁL OG GÁTA LÖGÐ FYRIR LESENDUR

gerviliðaskurðlækningar.JPG

Fimmtudaginn 30. júlí birtist grein í Morgunblaðinu eftir Ásgeir Guðnason, bæklunarskurðlækni. Þessi grein hefur hrist upp í mörgum.

Titill hennar var: Staða gerviliðaskurðlækninga á Landspítalanum – áhugaleysi eða getuleysi?

Ásgeir spyr hvað valdi því að biðlistavandinn á þessu sviði lækninga sé ekki leystur.
Hann bendir á að skimanir vegna Covid-19 hafi lengi vel verið framkvæmdar af Íslenskri erfðagreiningu vegna þess að Landspítalinn hafi þá ekki verið talinn ráða við verkefnið. En þegar ÍE hafi hætt skimunum þá “gat Landspítalinn skyndilega leyst vandamálið. Sennilega vegna þess að þeir urðu hreinlega að gera það.”

Og Ásgeir heldur áfram:

“Þess vegna spyr ég, eru biðlistarnir á Landspítalanum eftir gerviliðaskurðaðgerðum vonlaust verkefni eða ekki? Ef þetta er vonlaust að mati ríkisins – af hverju þá bara ekki að viðurkenna það opinberlega og gefast upp. Ef þetta er gerlegt, snýst þetta þá um áhugaleysi eða peningaleysi af hálfu ríkisins? Eða eigum við að taka sömu umræðuna ár eftir ár án þess að eitthvað gerist?
Íslensk stjórnvöld og Landspítalinn þurfa að stíga fram og sýna sínar hugmyndir. Það furðulega er að skurðlæknar Landspítalans eru sjaldnast spurðir um hvaða hugmyndir þeir hafa um vandamálið og hvernig mögulega Landspítalinn gæti leyst biðlistavandamálin.
Er hægt að fjölga liðskiptaaðgerðum á Landspítalanum með því að gera aðgerðir um helgar?
Er hægt að gera tímabundið átak í liðskiptaaðgerðum meðan aðrar valkvæðar aðgerðir bíða?
Væri hægt að láta skurðlækna Landspítala framkvæma aðgerðirnar á öðrum spítölum?
Eða eiga bara allir sjúklingarnir að fara í aðgerð erlendis eða á Klíníkinni þar sem bara sumir sjúklingar geta borgað fyrir aðgerð? …”

Nú þekkjum við afstöðu núverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Hún vill fjármagn inn í opinbera heilbrigðiskerfið til að sinna verkefninu þar.

Það vill hins vegar varaformaður fjárveitinganefndar, Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins ekki. Hann segist ekki vilja veita meira fjármagni til spítalans og uppsker lof og prís í Staksteinum og leiðara Morgunblaðsins fyrir þá afstöðu sína.

Í niðurlagi Staksteina sl. þriðjudag þar sem fjallað er um fyrrnefnda grein Ásgeirs segir: “Getur til dæmis verið að hægt sé að hagræða í rekstri heilbrigðiskerfisins, bæði í rekstri ríkisspítalans og með því að nýta kosti einkarekstrar í meira mæli?”

Samkvæmt grein Ágeirs var þetta ekki sú spurning sem honum lá á hjarta heldur krafðist hann svara um hvað Landspítalinn og heilbriðgsráðherra ætluðu sér.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er málið spunnið áfram á hinum pólitíska rokki hægri manna:
“Varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Haraldur Benediktsson, sagði í samtali við Morgunblaðið á dögunum að ekki sé líklegt að sett verði aukið fjármagn í rekstur Landspítalans á þessu ári, fremur verði horft til aðhaldsaðgerða. Kostnaður vegna kórónuveirunnar virðist þó undanskilinn, sem ef til vill er nauðsynlegt, í það minnsta að hluta til.
Þingmaðurinn sagði spítalann hafa „gríðarlega möguleika til forgangsröðunar fjármuna og ráðuneytið hefur verið að reyna að herða að útgjaldavexti síðustu ára. Svo þarf einnig að fara í önnur mikilvæg verkefni eins og til dæmis rekstur hjúkrunarheimila.“ Aðspurður tók Haraldur undir að aukinn einkarekstur gæti verið hluti hagræðingar sem þyrfti í heilbrigðiskerfinu … Vonandi verður þessu fylgt eftir innan fjárlaganefndar þingsins … En þó að fjárlaganefnd geti haft sitt að segja í þessum efnum er hætt við að lítið færist í rétta átt breytist viðhorf ekki í heilbrigðisráðuneytinu. Og til að svo verði þurfa þingmenn sem telja að leyfa eigi kröftum einkaframtaksins að njóta sín í auknum mæli í heilbrigðismálum að vera mun afdráttarlausari en þeir hafa verið á undanförnum árum.
Staðreyndin er sú að núverandi heilbrigðisráðherra hefur verið látinn komast upp með að þrengja að einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, jafnvel í tilvikum þar sem augljóst óhagræði hlýst af og ríkið tapar háum fjárhæðum. Og þá hefur ekki heldur skipt máli að sjúklingar standi fyrir vikið verr að vígi.
Þessi staða er auðvitað óásættanleg, en vonandi fela orð varaformanns fjárlaganefndar í sér að einhver vilji verði til þess að gera meira en ræða málin og skoða.”

Af þessum málflutningi hefur teiknast upp skýr mynd.
Heilbrigðisráðherra vill leysa vandann innan opinbera kerfisins og fá til þess fjármagn.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, með stuðningi Morgunblaðsins, vilja svelta kerfið og þröngva því til uppgjafar svo búa megi í haginn fyrir hagnaðarfjárfestingu í heilbrigðisþjónustu.

Og þá kemur gátan: Hver þrengir að hverjum í heilbrigðiskerfinu, hver heldur hverjum þar í gíslingu? Það skyldu þá aldrei vera pólitískir handlangarar fjármagnisins sem með framgöngu sinni hafa bráðnauðsynlega þjónustu af veiku fólki?

Hvernig væri að taka umræðu lið fyrir lið um það hvernig fjármagn til heilbrigðismála nýtist best. Ásgeir Guðnason læknir reið á vaðið í þessari lotu í alvöruþrunginni og vandaðri blaðagrein. Hann vill nálgast viðfangsefnið með opnum huga og skoða nýjar leiðir innan kerfisisns. Tökum skrif hans alvarlega og fáum svör við spurningum hans. Látum fulltrúa fjárgróðans á þingi og utan þings ekki eyðileggja heilbrigðiskerfið. Þeim hefur tekist þetta sums staðar með hörmulegum afeiðingum.
Vítin eru til að varast þau.

Fréttabréf