Fara í efni

DAGBÓKARÞANKAR TIL (ANDLEGRAR) MELTINGAR

Ég gekk eftir Suðurgötunni í Reykjavík. Framhjá mér fór svört límúsína. Undir stýri sat karlmaður á besta aldri. Hann var einn í bílnum - með andlitsgrímu.

Ég hlustaði á viðtal við bónda sem var að undirbúa sig undir smölun og réttir. Við verðum með grímur, sagði hann. Annað er ekki í boði.

Ég frétti að í Noregi væri fólk farið að kæra hvert annað fyrir andfélagslega hegðun, fyrir að virða ekki ítrustu boð og bönn.

Ég hlustaði á fréttir frá Frakklandi um að að ólöglegt væri að fara út fyrir hússins dyr í París án grímu. Brot varði sektum og fangelsun. Gul vesti sjást nú hvergi í frönskum borgum, bara hulin vit.

Ég las að í Nýja Sjálandi væri ríkisstjórnin búin að uppgötva að því strangari reglur sem hún setti þeim mun vinsælli yrði hún.

Ég veitti því athygli að framarlega í íslenskum sjónvarpsfréttum sagði að leyfi hefði verið gefið fyrir því að leikarar snertust og fótboltamenn líka ef ég heyrði rétt.

Ég talaði við forsvarskonu frá Katalóníu  sem andæfir pólitískum fangelsunum. Hún kvað alla baráttu í dái enda ”allt bannað”; spænsk stjórnvöld skákuðu í skjóli Covid. “Það segi ég þótt ég hafi misst aðstandendur úr þessum veirufaraldri”, sagði hún.  

Ég les að til er að verða einhvers konar “frelsishreyfing” gegn sóttvörnum. Talað er um stjórnarskrárvarin mannréttindi í því samhengi.

Ég les líka að fólki þyki það vera mannréttindi að verjast sjúkdómum af öllu því afli sem eitt þjóðfélag býr yfir; það eigi nánast að vera stjórnarskrárbundin krafa að svo verði gert.

Ég las að bæði sjónarmiðin ættu séfellt harðdrægari málsvara; nefnilega annars vegar að vilja verjast veiru með öllum tiltækm ráðum og hins vegar að verjast refsingum fyrir brot á sóttvarnalögum. Að boði ríkissaksóknara á Íslandi er heimilt að sekta um 10 þúsund til 100.000 krónur fyrir að bera ekki andlitsgrímu (upphæð fari eftir aðstæðum) og  fyrir brot á sóttkví eða einangrun, allt að hálfri milljón – 500.000 kr..    

Allt þetta læt ég ganga til vinnslu í hinum andlegu meltingarfærum. Að sinni læt ég þar við sitja; ætla ég ekki að leggja dóm á þessar og ýmsar aðrar fréttir tengdar leðurblökusjókdóminum frá Wuhan. Læt mér nægja að velta vöngum. Veit varla hvað er rétt að láta sér finnast.

Fer að ráðleggingum stjórnvalda en verð sífellt meira hugsi yfir réttarfarslegum, félagslegum og heilsufarslegum “hliðarverkunum”. Sé hve stutt er öfga á milli og að mannfólkið hefur ekki öðlast ónæmi fyrir hjarðhegðun sem er öllum sjúkdómum hættulegri. Það ætla ég alla vega að láta mér finnast!

Ég tek líka eftir því að ríkisstjórnir eru tilbúnar að grípa til ótrúlegustu aðgerða á meðan allar hinar ríkisstjórnirnar eru að gera það sama. Ef svo aftur þarf að synda á móti straumnum verða þær allar ósyndar!

Sömu yfirvöld og banna fólki að snertast treysta sér ekki til að hamla gegn innflutningi á hráu kjöti sem borið gætu skaðlega sýkla inn í fæðukerfi okkar. Ósköp einföld aðgerð og í samræmi við það sem ég hefði haldið að væri heilbrigð skynsemi. Það sögðu okkur alla vega vísindamennirnir, það er að segja þeir sem þorðu að standa í fæturna. En meginstraumurinn vildi annað og þangað steðjuðu þau sem er eðlislægt að fylgja hjörðinni.

En mætti kannski endurhugsa þetta með matvöruinnflutninginn og þá ef til vill heimila fleirum að snertast? Og kannski smala fjallasali Íslands grímulaust? Allt þetta um leið og sóttvarnir eru í heiðri hafðar? Ég held að yfirveguð dómgreind gæti leitt okkur þangað.

Skyldi Covid hafa breytt einhverju? Sennilega myndum við ekki vilja flytja inn leðurblökukjöt frá Wuhan. Þangað erum við þó komin. Sennilega.  En næði það lengra en til leðurblökunnar ef samtök verslunar og EES vildu annað?

Ég efast um það.

Sjáum til hvað hin gera? Líklega verður þannig spurt. Það er vinnuregla hjarðarinnar: Ef allir eru að gera það, þá gerum við það líka.