EKKI FLEIRI LÖGFRÆÐINGA!

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 26/27.09.20.

Ég ætla að hætta mér út á vettvang þar sem hætt er við að mönnum skriki fótur. Reyndar hef ég stundum komið nálægt efninu áður, til dæmis þegar ég sagði frá frúnni sem rann í hundaskít á kirkjustétt í Færeyjum. Þá hafi komið til skjalanna lögfræðingur sem sagði að á henni hefði verið brotið enda ætti hún ótvíræðan rétt á því að renna ekki í hundaskít. Nú þyrfti að finna hundinn og síðan eiganda hans eða þann sem lét óátalið að hundurinn hlypi um á svæðinu og gerði þarfir sínar … eða þann sem hreinsaði ekki skítinn. Rannsóknarefnin væru mörg sem þyrfti að kanna og til þess væri hann til þjónustu reiðubúinn. Eitt væri víst, þetta væri einhverjum að kenna, það væri lögfræðinnar að finna hinn seka og tryggja makleg málagjöld.

Þetta er orsök þess að ástæða er til að fyllast skelfingu þegar fréttist af atvinnuleysi meðal lögfræðinga, því þá hefst leit þeirra að verkefnum.

Nú þarf að setja fyrirvara áður en lengra er haldið. Að sjálfsögðu er það svo að margt sem hendir okkur hvert og eitt og er öðrum að kenna af vangá, að ekki sé talað um illan ásetning, þá getur það hafa leitt til tjóns sem þarf að bæta með einhverjum hætti, í sumum tilvikum skaðabótum. Þetta ætti að vera óumdeilt.

Það er hitt sem ekki er eins augljóst og það er hvar mörkin skuli liggja. Umræðan um þessi landamæri má aldrei einskorðast við dómssalinn, þá umræðu þarf líka að taka úti í samfélaginu, því hún er í eðli sínu í bland lýðræðisleg og lögfræðileg. Við eigum því ekki að láta lögfræðinga eina um hana. Og stjórnmálamenn verða að hætta að hlaupa í felur þegar erfið siðferðileg álitamál koma upp eins og ítrekað gerist í umræðunni um hælisleitendur: “Spyrjið kerfið”, segja þeir og loka að sér. Síðan er það komið undir sviptivindum hvar þeir endanlega lenda.

Í fréttum er okkur sagt frá lögsóknum á hendur austurrískum stjórnvöldum fyrir að hafa ekki lokað borgum og bæjum, helst landinu öllu, þegar vitað var að kovidveiran var að breiðast þar út. Í sjónvarpsfréttum birtist ábúðarmikill lögmaður sem sagði augljóst að yfirvöldin hefðu metið efnahaginn mikilvægari en heilsufarið með þeim afleiðingum að fólk hefði veikst alvarlega og sumir látist. Nú þurfi að fá skaðabætur. Íslenskur fréttamiðill minnti á í samhenginu að íslensk stjórnvöld hefðu verið fyrri til en austurrísk að skilgreina viðkomandi svæði sem hættusvæði. Með öðrum orðum, við erum komin nærri því að talað sé um ásetningsglæp; að yfirveguð ákvörðun hafi verið tekin um að tefla í tvísýnu á kostnað heilsufars.

Þetta var í upphafi árs. Á sama tíma trúði því enginn að Bandaríkjunum yrði hreinlega lokað fáeinum dögum síðar og útgöngubann sett víða um heim. Þannig hlýtur aðgerðaleysi austurrískra stjónvalda að líta öðru vísi út í baksýnisspegli en þegar menn þrátt fyrir allt vissu ekki betur á líðandi stund. Þannig er það nú samt ekki í heimi skaðabótalögfræðinnar.

Annað dæmi: Hörmuleg mistök eiga sér stað í krabbameinsleit, svo alvarleg að hugsanlega hefur leitt til ótímabærra dauðdaga og veikinda. Kerfið tekur allt við sér að því er best verður séð. Enginn véfengir að huga þurfi að viðeigandi viðbrögðum gagnvart þeim sem mistökin bitnuðu á jafnframt því sem allt kerfið er tekið til endurskoðunar. En eru það lögfræðingar sem eiga að stýra þeirri umræðu; aðilar sem sjálfir hafa persónulegan hag af því að keyra málin inn í farveg himinhárra fjárhagslegra skaðabóta? Varla.

Ef ekki er að gáð munu sífellt fleiri mál, sem í eðli sínu eru pólitísk eða siðferðileg, enda sem úrlausnarefni dómstóla. Þar öðlast þau gjarnan þá skilgreiningu að teljast til mannréttinda. Dirfist menn að finna að niðurstöðum dómstólanna þykir mörgum það jafngilda því að vera andsnúinn mannréttindum.

Að lokum nefni ég óplægðan akur fyrir lögfræðingastéttina, akur sem er vel plægður vestur í Bandaríkjunum og skýrir hvers vegna heilbrigðiskerfið þar er hið dýrasta í heimi. Það er vegna þess hve markaðsvætt það er og fyrir vikið opið fyrir lögsóknum á grundvelli tryggingabrota. Þegar kostnaður við heilbrigðiskerfið þar er metinn, reiknast með kostnaðurinn við að standa straum af framfærslu gráðugrar stéttar lögmanna.

Nú má sjá þess merki að tryggingafyrirtækin íslensku auglýsi af auknum krafti að landsmenn tryggi sig fyrir veikindum og þá væntanlega skakkaföllum í tengslum við sjúkdóma. Í seinni tíð höfum við tryggt okkur fyrir sjúkdómum með öflugu sameiginlegu heilbrigðiskerfi.

Ef háskólar halda fáfram að framleiða lögmenn umfram eftirspurn í sama mæli og gert hefur verið munu þeir opna á ný “viðskiptatækifæri” með tilheyrandi afleiðingum.

Væri kannski þjóðhagslega skynsamlegt að mennta færri en fleiri lögfræðinga og hafa þá við störf sem gagnast okkur sem samfélagi?

Ég hallast að því.

Fréttabréf