TÍKIN

Tíkin.JPG

Það var alveg á mörkunum að ég þyrði að lesa Tíkina, nýjustu bók Angústúru-útgáfunnar, en hún kom inn um bréfalúguna fyrir fáeinum dögum, það er að segja til okkar sem erum áskrifendur, nokkuð sem óhætt er að mæla með við alla sem enn eru ekki innvígðir í þennan klúbb.

En hvers vegna banginn? Í kynningu bókarinnar - í eins konar úrdrætti - var okkur nefnilega sagt að hún fjallaði um stúlku sem hefði viljað eignast barn en ekki fengið þá ósk uppfyllta, eignast hins vegar hundtík en að þar með væri sagan ekki öll sögð. Í loftinu var það látið liggja að þetta væri ógæfusaga.  

En svo var það hitt sem gerði mig forvitinn, og það var hve stutt bókin er. Hvernig mátti það vera að höfundinum hefði tekist að fanga alla þessa lesendur og gera þá sér handgengna með ekki fleiri orðum en rúmuðust á aðeins rúmlega eitt hundrað síðum og það í litlu broti?
Það fylgdi nefnilega kynningunni að höfundurinn, Pilar Quintana, hefði öðlast viðurkenningu og frægð, ekki aðeins í heimalandi sínu, Kolumbíu, heldur um allan hinn lesandi heim, fyrir þessar rúmlega eitt hundrað síður sem fjölluðu um örlög  fátækrar konu í Kolumbíu og tíkina hennar.

Þannig að ég las ég Tíkina - að sjálfsögðu. Ég verð líka að játa að svo vel treysti ég orðið dómgreind þeirra hjá Angústúru-útgáfunni að ég geng að því sem vísu að aðeins sé boðið upp á það besta; og eins og fyrri daginn úr heimi sem er framandi okkur flestum sem hér búum.
Og allt stóð það heima, fyrr en varði var hugur lesandans fanginn og hann farinn að skilja og skynja hlutskipti fólks á hinni framandi slóð og finna til samkenndar með því.

Í eftirmála lýsir þýðandinn, Jón Hallur Stefánsson, efnisinntaki bókarinnar og leggur út af henni af viti og innsæi þótti mér.
Þetta tíðkar Angústúra útgafan og þykir mér vera snjöll hugmynd því þýðandi bókar - og þá er ég að tala um góðan þýðanda bókar – er annað og meira en sá sem snýr texta yfir á nýtt tungumál. Hann verður að skilja viðfangsefni sitt í þaula, sálina sem í því býr. Takist það einsog hér hefur tekist er ekki verra að miðlað sé til okkar hinna. Með því móti er efnt til eins konar samtals við lesandann þótt þögult sé.

Takk Angústúra eina ferðina enn.    

Fréttabréf