Fara í efni

HVORT MÁ BJÓÐA: MENGUN AFTAN ÚR NATÓ-VÉL EÐA BELJURASSI?

Fyrir fáeinum vikum boðaði ríkisstjórnin til fréttamannafundar til að skýra frá aðgerðum í loftslagsmálum. Ein aðgerðin væri að draga úr vindgangi í iðrum búfénaðar. Ljóst er að hér þarf að setja niður talsvert af trjáhríslum til mótvægis.

Ríkisstjórnin vill verja eitt þúsund og tvö hundruð milljörðum til samgöngumannvirkja á næsta hálfum öðrum áratug. Ljóst er að róta þarf talsvert í jarðvegi í tengslum við þessar framkvæmdir. Þannig að enn þarf að planta, nú af völdum ríkisstjórnarinnar.

Svo kom þriðja reiðarslagið. Hér eru staddar tugir orustuþotna frá NATÓ að æfa sig fyrir strið í boði ríkisstjórnarinnar. Eyfirðingar urðu í dag vitni að logandi eld-brennurum aftur úr þessum vélum. Að sögn er þetta gríðarlega mengandi. Þannig að enn þarf að planta.

Svo má náttúrlega leika sér með tölur og velja og hafna.
Til dæmis að leyfa vindgang í búfénaði en hafna stríðstólunum, eða hvað skyldu íslenskar beljur mega reka mikið við til að hafa uppí einn NATÓ herflokk með eld-brennara aftur úr sér?
Spyr sá sem ekki veit.
Þjálfaður þingmaður eins og Björn Leví gæti eflaust sett þetta upp í excel skjal fyrir Alþingi.

Sjá ennfremur: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thar-sem-oliklegt-er-ad-a-althingi-vilji-nokkur