Fara í efni

KOMINN ÚT: SPEGILL ÓLÍNU FYRIR SKUGGABALDUR

 

Ólína Þorvarðardóttir lætur ekki að sér hæða. Nýútkomin bók hennar, Spegill fyrir skuggabaldur, fjallar um spillingu og misbeitingu valds á Íslandi.

Það er freistandi að endursegja sumt sem fram kemur í þessu riti svo magnað og lærdómsríkt er það.

Ég nefni sérstaklega samskipti ýmissa aðila, þar á meðal höfundar sjálfrar, við Samherjaveldið, yfirganginn og ofbeldið – hvernig valdi auðsins er beitt gegn þeim sem voga sér að gagnrýna, ekki aðeins Samherjasamsteypuna, heldur fiskveiðistjórnarkerfið, kvótakerfið, sem hefur fært stór-kvótahöfunum auð “sinn”.

Ólína hefur greinilega legið yfir viðfangsefni sínu og rannsakað mörg mál ofan í kjölinn. Dæmin eru ófá sem hún tínir til og heyrum við af kúgun og þöggun í viðskiptalífi, stjórnsýslu og pólitík.

En í stað þess að endursegja hvet ég fólk til að ná sér í bókina og lesa sjálft. Mér fannst lesninigin fróðleg og margs varð ég vísari.

Styrkur bókarinnar er Ólína sjálf, leikandi léttur still hennar og óttaleysi. Tek ofan fyrir því.

Styrkur bókarinnar er líka að hafa safnað saman í eina bók öllum þeim málum sem þar er að finna, rifja þau upp og kryfja. En einmitt þetta er jafnframt veikleiki bókarinnar, að setja undir sama hatt öll þau mál sem hafa verið flokkuð undir valdbeitingu, stundum fyrst og fremst af þeim sjálfum sem í hlut eiga, án þess endilega að fólki almennt finnist að réttmætt sé að setja þau undir sama hattinn.

Sum þessara mála kunna einfaldlega að orka tvímælis í hugum manna.

En þar er komið að lesandanum: Að beita eigin dómgreind.

Takk Ólína fyrir þitt framlag.