STJÚPA MJALLHVÍTAR OG AMMA RAUÐHETTU


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.10.20.
Þegar kenna átti börnum fyrr á tíð að hætta sér ekki á ókunnar varasamar slóðir, til dæmis fara ekki langt inn í myrkan skóg þar sem vargdýr og óvættir héldu sig, þá voru þeim stundum sögð óhugnanleg ævintýri til að vara þau við hættunum: Sjáið hvað henti Rauðhettu litlu. Úlfur át ömmu hennar og vildi éta hana sjálfa líka.

Sagan af vondu stjúpunni og Mjallhvíti er langsóttari, en ég get mér þess til að hún geymi varnaðarorð um að ekki sé allt sem sýnist í mannlegum samskiptum, sá sem segist vilja þér vel hugsi stundum flátt.

Þessar sögur smellpassa inn í samtímann. Vonda stjúpan er náttúrlega Kína sem vill yfirtaka símasamskipti okkar og fá þannig aðgang að öllu sem þar er skráð, möguleika á að fylgjast með okkur í einu og öllu.

Vonda stjúpan segist allt vilja fyrir okkur gera. En þá heyrist sagt mjúkri röddu: Ekki treysta stjúpunni, hún er vond eins og í ævintýrinu, látið okkur sjá um netöryggið.

Í fyrrasumar skrifuðu sendiherrar NATÓ-ríkja sameiginlega í íslensk blöð til þess að klappa íslensku ríkisstjórinni á kollinn og þakka fyrir gestrisni hennar í tengslum við viðamikla heræfingu bandalagsins hér á landi og við landið. Þetta voru mjúkar raddir sem segja að ráð sé að íslensk stjórnvöld og norræn spyrði sig saman í samstarfi um netöryggismálin. Til þessa höfðu sendiherrar NATÓ einnig vísað í grein sinni. Saman myndum við leysa netöryggismálin og fá hjálp hjá góðri ömmu.

Og góða amman segir að við eigum bara að muna að passa okkur á Kína. Við þessu hafa Bretar þegar brugðist og sagt upp símasamningum við Kína, að undirlagi bandarískra yfirvalda, og alls kyns “upplýsingum” er nú lekið út, Grimmsævintýrum í nýjum búningi: Þið gætuð lent á lista eins og þeim sem nú gengur ljósum logum með nöfnum óskyldra einstaklinga í óskiljanlegu samhengi. Þingmenn á listanum lýsa yfir óhugnaði og skelfingu enda komnir út í myrkan skóg.

En hvað með hana ömmu, góðu ömmu okkar? Var það ekki Bandaríkjastjórn sem varð uppvís að því að hlusta á símtöl evrópskra stjórnmálamanna, ekki bara Merkel Þýskalandskanslara, ekki einhverra fárra á illskiljanlegum lista, heldur allra sem bandarísk yfirvöld vildu eiga á bandi?

Er það ekki líka rétt að Danir hafa orðið uppvísir að njósnasamstarfi við Bandaríkjamenn af þessu tagi? Og þegar upplýst var að Bandarikjamenn hefðu hlerað allt Brussel-batterí Evrópusambandsins nú nýlega að þá hafi komið í ljós að sænska leyniþjónustan hafði verið þeim til aðstoðar, sömu aðilar og klappa okkur á kollinn fyrir undirgefnina.

Jafnvel eftir að við höfum sannfærst um að vonda stjúpan sé raunverulega vond – og það er ágætt, því  það er hún – þá væri kannski ráð að spyrja hana ömmu hvernig hún fari að því að gera röddina sina svona mjúka, hvort það sé hveitið eins og í Rauðhettuævintýrinu?

Svo legg ég til að við höldum áfram og spyrjum út í eftrrlitsþjóðfélagið hér hjá okkur, hvernig á því standi eftir alla umræðuna fyrir nokkrum árum um auðkenni, að það skuli enn vera á forræði banka sem gætu gengið kaupum og sölum, þess vegna til vondu stjúpunnar. Hví er það ekki hjá Þjóðskrá, stofnun í almannaeigu, sem býður upp á auðkeninngu, Íslykilinn? Hann þykir þó ekki gjaldgengur í Covid-prófi. Þar verðum við að snúa okkur til stjúpunnar.

Svo er það önnur spurning, nátengd, um eftirlitsþjóðfélagið, þvi allt snýst þetta um það. Hvernig stendur á því að sáralítil umræða varð þegar í ljós kom að lögreglan hafði haft upp á fólki sem sótt hafði tiltekinn bar og þá einnig hvert það hafði síðan farið, með því að rekja kortafærslur þeirra sem í hlut áttu?
Þetta hefði þótt rétt að gera, var okkur sagt, gagnvart fólki sem sýnt hefði óábyrga hegðun, ekki tilkynnt um ferðir sínar. Það fylgdi með að slík öryggisaðgerð lögreglunnar heyrði til undantekninga.
En hve lengi verður það svo? Í einræðisríkjum er allt leyfielgt gagnvart hinum óábyrgu, “óvinum samfélagsins”.

Á hvaða vegferð erum við?

Ekki spyrja ömmuna með stóra munninn. Hún vill ein sitja að því að gæta okkar, sitja ein að því að njósna um okkur, því það ætlar hún að gera, en enga samkeppni í eftirlitinu með okkur vill hún, enga vonda stjúpu upp á dekk.

Verst er að hún Rauðhetta okkar virðist ekki sjá neitt athugavert við munninn hennar ömmu og stóru tennurnar hennar.  
Þá var ævintýrið betra.   

 

Fréttabréf