Fara í efni

TILLAGA TIL ÞRÍEYKIS

Spilavítum Háskóla Íslands hefur verið lokað tímabundið í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis. Samkvæmt því sem fram hefur komið er þetta bann virt og er svo að skilja að allir spilakassar HÍ séu lokaðir nema að fréttir hafa borist af því að nokkrir kassar séu enn opnir á tilteknu veitingahúsi.  

Íslandsspil sf sem er í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargsr og SÁÁ eru hins vegar enn með alla sína spilakassa opna.

Fram hefur komið af hálfu Samtaka áhugafólks um spilafíkn að tilvísun í spilakassa hafi verið fjarlægð úr þeirri reglugerð sem var í gildi síðastliðið vor. Í frétt á vefritinu Vísi kemur fram að Rauði krossinn hafi fyrir sitt leyti bent á að sprittbrúsar séu við kassana og spilafíklarnir ættu fyrir vikið að eiga auðvelt með að fylgja sóttvörnum. 

!!!
Dæmi hver fyrir sig.

En eftir stendur spurningin um hvers vegna tilvísun til spilakassa hafi verið fjarlægð úr reglugerðinni. Þessu verður að svara en mikilvægara er þó að þessu verði breytt hið snarasta.

Og hér kemur tillagan sem vísað er til í fyrirsögn:
Fólki verði heimilað að spila golf enda sé spilarinn einn á ferð eða með fastaföruneyti sínu, vini eða maka, eins og tíðkast alla jafna. Hættan á smiti úti undir bláhimni er illa sýnileg. Það er hún hins vegar inni í sjoppu við spilakassa jafnvel þótt Rauði kross Íslands sjái spilafíklinum fyrir spritti til að sótrthreinsa sig rétt á meðan góðgerðastofnunin tæmir vasa hans í þágu góðs málefnis.

Væri þetta ekki sanngjarnt, kannski líka skynsamlegt, að skipta út golfi fyrir spilakassa?