ÖNGSTRÆTI BANDARÍSKRA STJÓRNMÁLA

dead end street.JPG

Í Bandaríkjunum er að finna það besta og það versta.

Það besta: Listir, vísindi, andans fólk, sköpunarkraftur, velvild og hjálpsemi, þjóðfélag lausara við stéttarrembing en austan Atlantsála; samfélag sem hefur upp á að bjóða margt af því besta sem gerist í víðri veröld.

Það versta: Yfirigangur auðvalds og þjónkun stjórnmálamanna við þetta sama auðvald, alþjóðafrekja, hernaðarhyggja, misrétti, ójöfnuður og frumstæð stjórnmál.

Hvor slær hinn út sem slæmur leiðtogi mesta herveldis heims, sjálfs handlangara heimsauðvaldsins, Trump eða Biden?

Ég veit það ekki.

Trump stóð við loforð sín að draga úr hernaðarumsvifum BNA í Mið-austurlöndum og á heimsvísu.
Biden er liklegur til að bæta í.

Trump bremsaði af alþjóðavæðingu fjármagnisins með því að stöðva alþjóðasamninga í þessa veru, samninga sem voru algerlega á forsendum fjámagnsins; samninga sem Obama þröngvaði með hraði í gegnum Bandaríkjaþing. Biden var þá varaforseti hans og hafði verið innsti koppur í búri á Bandaríkjaþingi í ljótustu illvirkjum Bandaríkjanna á síðustu áratugum í Íraks-innrásinni, árásinni á Líbíu og að baki Saúdi Arabíu í Jemen og þannig mætti áfram telja.

Trump stendur gegn því að bæta ranglátt velferðarkerfi Bandaríkjanna, æsir til uppþota, kyndir undir ósætti og hatri á milli þjóðfélagshópa og fólks af mismunandi kynþáttum, lýgur ef þörf gerist. Grefur undan lýðræði og veikir þann siðferðisgrundvöll sem við stöndum á.

Þarna er Biden líklegri bandamaður í viðureign við velferðarskortinn í BNA.

Báðir eiga eflaust milljónir aðdáenda og stuðningsmanna. En mín grunsemd er að kjósendur hafi verið að kjósa “á móti”.

Á móti Trump. Fyrir lygarnar, ómerkilegheitin og fordóma hans gegn flestu því sem fólki finnst vera gott og siðlegt. Út með hann, óháð valkostinum við hann!

Á móti Biden. Holdgervingi kapítalisma og hernaðarfrekju stærsta auðvaldsríkis heimsins, gegn tvískinnungi, á móti stjórnmálamanni sem er tilbúinn að troða á fátækum þjóðum ef það hentar þeim hagsmunum sem hann er handgenginn og þjónar.

Ég hefði setið heima, gripið í Birtíng Voltaires, þar sem segir að sérhver maður skuli rækta garðinn sinn.

Heimurinn þarf að fara að horfast í augu við sjálfan sig.

Ef við búum ekki til réttlátara þjóðfélag og réttlátari heim þá fáum við fleiri stjórnmálamenn, karla og konur, af þessu sauðahúsi. Fyrir eru þau allt of mörg og hefur farið fjölgandi.

Það er ekki bara svo að stjórnmálamenn búi til réttlátan heim.
Réttlátur heimur býr til réttláta stjórnmálamenn.

Spurningin er hvort kemur á undan hænan eða eggið.
Eins og sakir standa er hvorki sýnileg hæna né egg í Bandarikjunum.

Við sjáum bara vítahring, horfum inn í öngstræti.
Það verður verkefni bandarísks almennings næstu árin að komast þaðan út.

Það er hægt.
Það kennir sagan.
Allt er hægt.
En það gerist ekki áreynslulaust.

   

  

 

 

Fréttabréf