STÓRKOSLTEG EIVÖR

eivör2.JPG

Yfirleitt er ég meiri hljóðvarpsmaður en sjónvarps. Síðustu daga hef ég hins vegar haft Sjónvarpið opið flest kvöld enda boðið upp á afbragðsefni.

Nú ætla ég ekki að fara að telja upp allt sem fyrir augu bar og gladdi mig enda myndi ég þá gera á hlut einhverra sem fóru framhjá mér en hefðu átt lof skilið.

Þó vil ég segja að KK og Ellen eru í mínum huga eins og englar þegar þau birtast með sinn fallega söng og útgeislun.  Sigríður Thorlacius er líka frábær, Megas orðsins maður par excellens, aðdáandi Pálma hef ég alltaf verið og verð.

Svo er það Baggalútur. Þeir eru í mínum huga sér á parti, stórskemmtilegir og húmorinn witty eins og enskumælandi menn myndu segja, það er í honum vit. Svo er þeirra húmor líka góðviljaður. Baggalútur hittir í mark án þess að meiða nokkurn. Húrra fyrir Baggalúti!

Svo þyrfti náttúrlega sér kafla um Benedikt Erlingsson svo frábær þykir mér hann. “Guðspjall” Benedikts um fyrirgefninguna og umburðarlyndið var á dýptina þótt húmorinn væri nærri. Ég er viss um að Himnaföðurnum hefur þótt  þetta gott þótt hann eigi því að venjast að heyra þessu inntaki lýst með öðrum orðum.

Kem ég þá að Eivör hinni færeysku sem við Íslendingar viljum helst fá að eiga með Færeyingum. Hún kom fram í norrænni - danskri held  ég -  tónlistardagskrá þar sem flestir sungu á amerísku um White Christmas. Ekki svo að skilja að rétt sé að staðnæmast við það sérstaklega nema að því leyti að Eivör skar sig fyrir bragðið úr þegar hún tók að syngja Heyr himnasmiður, Kolbeins Tumasonar við lag Þorkels Sigurbjörnssonar. Svo frábærlega gerði hún þetta að ég leyfi mér að segja að aldrei hef ég heyrt þetta betur flutt. Hef ég þó heyrt þennan forna sálm fluttan óteljandi sinnum og oft afbragðsvel!  

Fréttabréf