FEGURÐ FRELSISINS
Það tók mig nokkurn tíma að lesa nýjustu áskriftarbók Angústúru útgáfunnar: Uppljómun í eðalplómutrénu.
Kannski varla að undra því lengi vel reikaði ég um skilningsvana í mörg þúsund ára sögu Írans, þar sem ég var kynntur fyrir sendiboðum Zaraþústra, sem uppi var fyrir þrjú þúsund árum rúmum, skógarpúkum og svo fólki menningarandans, lifandi og liðnu, að ógleymdum Khomeny erkiklerki og handlöngurum hans, sem hrintu keisarastjórninni írönsku frá völdum 1979.
Þarna var í reynd upphafsreitur sögunnar. Á ári íslömsku byltingarinnar var höfundur bókarinnar, Shokoofeh Azar, sjö ára. Frá þessum tíma átti fjölskylda hennar erfiða daga, þjáningu og linnulausar ofsóknir, enda ekki að skapi hinna nýju valdhafa. Um þetta hlutskipti fjallar bókin sem þó um margt svipar meira til málverks eða ljóðabálks en fraságnar í óbundnu máli.
Nóg um það. Þessu verða lesendur að kynnast í lestrinum.
Ég hef áður hrósað Angústúru útgáfunni fyrir tvennt, að leita til afbragðsþýðenda og að fá glöggan rýni til að segja okkur frá sinni sýn á lesefnið. Hvorugt brást nú frekar en endranær. Viðfangsefni Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur var ekki auðvelt, enda þurfti hún að snúa heilum menningarheimi yfir á tungumál okkar heims. Þar þótti mér henni takast vel upp. Svo var það innsæispistillinn. Hann kom að þessu sinni í bókarlok frá Maríönnu Clöru Lúthersdóttur: Góð greining og á dýptina.
Maríanna Clara rifjar upp þann meginþráð bókarinnar að fjölskylda höfundar flýr undan ofbeldinu í Teheran til afskekkts þorps: “Mamma sagði gjarnan: “Ef augu ykkar venjast þvi að sjá ofbeldi á götum og torgum borganna, þá mun þau halda áfram að aðlagast. Smám saman breytist þið í ykkar eigin óvin; sjálfan þann sem breiddi út ofbeldið.”
Þetta eru að mínum dómi mikil sannindi. Reyndar þykir mér bókin meira og minna vera varnaðarorð gegn hóphyggju og múgsefjun. Lokasenan í bókinni er gríðarlega áhrifarík áminning að þessu leyti til mannkynsins.
Já, mannkynsins!
Shokoofeh Azar, leiðir okkur vissulega um íranska menningu og ómenningu, ef því er að skipta, en hún kallar einnig alheimsmenninguna til vitnis, allt frá Línu langsokki til Hundrað ára einsemdar. Þetta er allt þarna til að minna okkur á allt hið góða og göfuga sem við eigum sameiginlegt en einnig á hætturnar. Þar horfir hún fyrst og fremst inn í Íran sinnar samtíðar.
En það eru þó ekki bara ofstækisfullir trúmenn sem spilla hinu listofna í menningunni. Þar koma aðrir kraftar einnig við sögu:
”Ég lái þér ekki. Tímarnir eru að breytast og það er verið að tortíma öllu sem okkur þótti vænt um. Líttu í kringum þig. Þessar bækur, þessi handrit, þessi skrautskrift; handritalýsingar, byggingarlist, landslag; þessar smámyndir- þær eru hvergi til lengur. Í staðinn fyrir þessi teppi með þýðingarmiklum þúsund ára mynstrum eru seldar verksmiðjuframleiddar mottur með myndum af Mikka mús; og í staðinn fyrir einn síma sem hringdi stöku sinnum úti í horni á hverju heimili er hvert fimm ára barn með farsíma. Allir gömlu garðarnir, sögufrægu húsin, fornir listmunir, handverk, þjóðardýrgripir og allt hitt sem var afrakstur árþúsunda af íranskri menningu, siðmenningu og hugmyndum, allt þetta hefur verið eyðilagt eða það er verið að eyða því eða taka það ránshendi á þessari stundu.”
Ekki er ég neinn fræðingur á bókmenntir. Ég hef þó lært að meta sitthvað sem vel hefur verið skrifað. Sumar lýsingar Azars eru angurværar og ljóðrænar á þann hátt sem minnir á minn uppáhalds höfund, Leó Tolstoy: Aldurhniginn þreyttur og bugaður maður snýr til æskustöðva sinna, gamals húss þar sem renna saman samtíð og fortíð, það sem nýtt er en einnig löngu liðið, forfeður og formæður:
“Þegar Husang sneri gamla lyklinum í lásnum á járnhliðinu og heyrði vælið í ryðguðum hjörunum leit hann á sama stóra, blómgróna garðinn og sömu eldfornu fururnar og platanvíðitrén og höfðu staðið þarna frá þvi hann fæddist. Þarna var grindin með skrauthyrninum og undir henni sátu móðir hans, faðir og aldurhniginn afi og drukku saffran- eða súrkisute eins og þau höfðu gert hvert síðdegi síðan hann mundi eftir sér. Þau brostu til hans eins og út úr eilífri innrammaðri ljósmynd. Eftir allar dapurlegu, þjáningarnar og umrótið fannst honum hann aftur standa frammi fyrir dálitlu broti af Paradís. Hann undraðist ekki að sjá þessa sýn aftur eftir svona mörg ár. Þau brostu við honum eins og út úr ódauðlegu handriti myndarinnar, líkt og þau hefðu beðið öldum saman eftir því að hann styngi ryðguðum lykli sínum í skrána á Quajar-húsinu þeirra, birtist fyrir framan þau úfinn og gráhærður, fölur á vangann og með örvæntingu í augum og spyrði: “Er enn pláss fyrir mig í þessu húsi?””
Gamalt og nýtt, lífs og liðið, raunverulegt og að handan, allt í einum þræði.
Ekki að undra að lesandin yrði ráðvilltur; svo villtur reyndar að ég var ekki viss um að komast á leiðarenda út úr völundarhúsinu sem þessi hvíta bók Angústúru reyndist vera.
En viti menn. Þegar seig á seinni hlutann var ég orðinn hugfanginn og smám saman varð það sem áður hafði reynst tormelt og óræðið, orðið fullkomlega skýrt, tilgangur kominn í hverja síðu og hverja málsgrein.
Og þegar faðir hafmeyjarinnar sem áður hafði verið stúlka, eins raunveruleg og hver önnur okkar á meðal, spurði dóttur sína, sem hann nú var að missa frá sér fyrir fullt og allt í djúp Kaspíahafsins, hvort hún hefði tekið eftir því hvað frelsið hefði gert hana fallega, þá var lesandinn fullkomlega með á nótunum og tók undir með föðurnum þegar hann sagði, “ég kann vel við þessa fegurð þína.”