Fara í efni

ERUM VIÐ Á LEIÐ Í BAÐSTOFUNA AFTUR?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 27/28.02.21.
Að mörgu leyti fer heiminum fram. Við fáum lækningu meina sem áður voru ólæknandi, komumst á milli staða, nánast óháð vegalengdum, tálmunum og torfærum, höfum aðgang að upplýsingaveitum sem á sekúndubroti opna þekkingarhirslur alls heimsins upp á gátt; við fáum heilu bækurnar lesnar í eyra okkar án þess að þurfa að hafa hið minnsta fyrir því og það sem meira er, ef við viljum nýta tíma okkar til hins ítrasta, þá er hægt að auka hraðann á lestrinum þannig að við náum að fá lesnar tvær bækur í eyrað á sama tíma og það tók lesarann að lesa eina inn á hljóðbandið. Framlegð við hlustun er þannig tvöfölduð svo talað sé tungumál framleiðsluhagfræðinnar.

En svo fer maður hugsa. Það er nefnilega það, að hugsa. Ég ákvað að reyna að hugsa þá hugsun eins langt til enda og ég kæmist, hvort nokkur hætta væri á því að við hættum að geta lesið eftir að vera lengi svona góðu vön. Og ef við hættum að lesa, væri þá ekki hætta á því að við glötuðum færni okkar til að skrifa? Ef enginn les orð þín, til hvers að skrásetja þau?

En nú gerast góð ráð dýr. Hvað gerir einstaklingur sem er bókstaflega að springa úr andagift, en kann ekki að setja sín háfleygu orð á blað, og af blaði í bók; en vel að merkja í bók sem aðeins er lesin inn á hljóðband?

Er þá ekki líklegt að milligöngu hins ritaða texta verði ekki lengur þörf; að sá sem býr yfir snjallri hugsun, fróðleik eða skáldskap og vill koma öllu þessu á framfæri vilji nú gera það beint og milliliðalaust, með eigin röddu inn á hljóðbandið eða hreinlega beint úr sínum munni í okkar eyra?

Einmitt þarna erum við komin inn á gamla baðstofuloftið. Þar voru vissulega lesnir húslestrar, en einnig sagðar sögur og flutt ljóð. Menn ætla að fornsögurnar hafi í upphafi verið fluttar þannig mann fram af manni, kynslóð fram af kynslóð. Og á Lögbergi voru lögin mælt af munni fram.

Þetta er ekki til að gera lítið úr. Orðlistin blómstrar í mæltu máli og þarf ekki að vera fangi prentmálsins. Ræðulist Rómverja byggði á því sem hugtakið lýsir; að mæla fram hugsanir sínar svo listilega að hrífi áheyrendur.

Mörg þekkjum við Noam Chomsky, bandaríska þjóðfélagsrýninn, ekki endilega af texta sem hann hefur skrifað og við lesið, heldur af þeirri hugsun sem hann kemur á framfæri við okkur í mæltu máli, í ræðu eða samtölum á netinu.

En svo er það hitt, hvað það gefur að staldra við og hugsa og handleika. Fletta síðum bókar, blaðs eða tímarits, taka þátt í veislu Stefáns Ögmundssonar, stofnanda Menningar- og fræðslusambands alþýðu, sem skrifaði í Prentarann fyrir rétt tæpum fjörutíu árum: “Þegar ég fór síðast í pósthús til þess að leysa út Skírni fannst mér eins og oft áður ég væri að stofna til eins konar veislu.” Að vísu var það svo í þetta sinn að veisluhöldin orkuðu tvímælis þegar til kastanna kom því ekki var allt á síðum þessa heftis bókmenntaritsins að skapi Stefáns, en veisla var það eftir sem áður í hans huga.
Ég gef mér það að á leiðinni á pósthúsið hafi Stefán gefið sér tíma til að hugsa og að sjálfsögðu án þess að hafa neitt í eyranu. Ekki einu sinni á einföldum hraða.

Getur ekki einmitt verið ágætt að hafa þetta allt í bland, hljóðbókina í eyranu, baðstofuna beint og Skírni til að handleika?  Og er þá ótalið það sem mestu máli skiptir, að hugsa. Bara hugsa. Hægt og rólega. Hugsa, án þess að hafa minnstu áhyggjur af hraða og framlegð.