Fara í efni

GRÍMUBALLIÐ Á ENDA?

Dregið hefur úr kvíða kvótahafa (þótt það eigi eftir að breytast), forstjóri sem dró sig í hlé vegna eignatengsla er aftur kominn á sinn stað, kvótamenn byrjaðir að moka aftur hundruðum milljóna í vildarvini sína, að þessu sinni í olíubrask, en kennitölur sömu og fyrr; keypt er og selt í landi og lúxús fyrir opnum tjöldum, braskarar eru alls staðar og um alla hluti álitsgafar, banki settur á söluskrá vegna þess að nú sé öllu óhætt því ríkisstjórnin hafi breytt öllu regluverki þannig að ekkert sé að óttast að sögn fjármálaráðherrans. Sýknað er án afláts í Strassborg í hvítflibbamálum og Einar Kárason skáldar sem aldrei fyrr.
Á Bjarna fjármálaráðherra er að skilja að svo rækilega hafi kvótanum verið stolið til frambúðar að tilgangslaust sé að setja ákvæði í stjórnarskrá um eign þjóðarinnar á auðlindum. Hvað þýðir eiginlega þjóðareign, spurði hann á Alþingi í vikunni sem leið.
Já, hvað skyldi það nú þýða Bjarni og skyldi vera til eitthvað sem heitir þjóð, fólk og almenningur? Er það ekki bara auðurinn og handhafar hans sem skipta máli?  Og náttúlrega regluverkið sem er orðið svo gott.
Í þvi sambandi er bara eitt smáatriði sem mig langar til að benda á og það er að þótt þú skiptir um regluverk þá er forritið í persónum og leikendum óbreytt. Þeir, afsakið þau, hugsa eins og áður. Þannig að leikritið breytist ekkert.
Og nú eru allir á leiðinni heim er okkur sagt í fyrirsögnum.
Um það er það að segja að í sjálfu sér sé það gott að menn taki niður grímurnar og tali hreint út um þjóðina sem ekki er til í þeirra leikriti. En hver veit nema að þjóðin sé að fá sig fullsadda á leikriti sem hún hefði helst viljað að aldrei yrði til.