Fara í efni

VONBRIGÐI FYRIR ÍSLENSKA ÞJÓÐ?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.08.21.
Það sem sóttvarnalæknir sagði vera vonbrigði fyrir íslenska þjóð var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að nauðungarvistun aðkomufólks til landsins á hóteli í Reykjavík byggði ekki á lagastoð og væri því ólögmæt.

Ekki var deilt um réttmæti þess að fólk færi í sóttkví í tiltekinn tíma heldur með hvaða hætti væri að því staðið. Ráðherrar í ríkisstjórn voru sumir hverjir álíka dramatískir í yfirlýsingum og sóttvarnalæknir og spurðu hvort verið gæti að fólkið gerði sér ekki grein fyrir því að við værum að eiga við heimsfaraldur!

Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að glímt er við heimsfaraldur og almennt hefur þjóðin tekið þátt í þeim aðhaldsaðgerðum sem boðað hefur verið til þótt sitt hafi sýnst hverjum um einstaka þætti þeirra aðgerða. Að sama skapi eru þeir til sem ekki hafa farið að ábendingum sóttvarnayfirvalda en hið gleðilega hefur verið að til þessa hafa yfirvöldin haft þá afstöðu að byggja ætti á velvilja fólks og samstöðu frekar en valdbeitingu. Þetta hefur líka gefið góða raun og niðurstaðan miklu betri en orðið hefði með þvingunaraðferðinni.

En öllum getur orðið á. Líka stjórnvöldum.

Þegar það nú gerist að ráðist er í aðgerðir sem ósætti er um eins og þessar þá ríður á að yfirvaldið forðist að sýna þann hroka og þá dómhörku sem nú skyndilega hefur gert vart við sig.

Sjálfum finnst mér það langt frá því að vera hafið yfir gagnrýni að smala aðkomufólki saman eins og gert var, reka það inn í rútur án nálægðartakmarkana, skapa þannig meiri smithættu en ella hefði orðið og síðast en ekki síst, og reyndar framar öllu öðru, meina þeim sem áttu öruggt athvarf fyrir sóttkví á heimilum sínum, að nýta sér það. Augljós ef þá ekki hrópandi mótsögn er í því fólgin að treysta landsmönnum sem smitast af Covid, eða gætu hafa smitast, til að halda sig innandyra á eigin heimilum, en ef grunur leikur á að sömu aðilar kunni að bera smit komandi frá útlöndum, þá skuli þeir nauðungarvistaðir að viðlagðri kvartmilljón króna sekt!

Og svo þegar hafi verið kvartað, var ekki reynt að leysa málin af yfirvegun og sanngirni, til dæmis með því að auðvelda fólki með lítil börn að komast til síns heima í sóttkví, heldur hafi þá verið bent á að nærtækast væri að hafa  samband við lögfræðing og kæra!
Og einmitt þetta gerðu einhverjir.

Er það þá eitthvað til að mæta með óbilgirni og dómhörku? Og eru það einhver sérstök vonbrigði fyrir íslenska þjóð að dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að rangt hafi verið staðið að málum?

Sjálfum finnst mér þetta einungis vera til að læra af. Og fyrst og fremst eru það yfirvöldin sem þurfa að læra í þessu tilviki.

Og fyrst vísað er til þjóðarinnar almennt þá má hún eflaust – við öll – taka það til umhugsunar hve auðvelt er að sundra okkur yfir í tvo gagnstæða póla, hópa sem standa gráir fyrir járnum hvor gegn öðrum, þegar einmitt á það reynir að bera klæði á vopn.

Þegar allt kemur til alls þá ætlaði enginn að gera neinum illt, hvorki yfirvöldin né fólkið sem taldi sér meinað um að fá málefnalega umfjöllun og vildi knýja hana fram.

Væri ekki rétt að allir sameinist um að taka gleði sína á ný en það breytir því ekki að stjórnvöldin verða að læra af þeim mistökum sem augljóslega voru gerð.
Þá verður þetta líka til góðs fyrir íslenska þjóð og henni því engin vonbrigði.