Fara í efni

ÞEGAR RÍKISSTJÓRN BÝÐUR ÞJÓÐ Í MAT


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 08/09.05.21.
Ekki get ég sagt að ég hafi hrifist af bók sem áhugafólk um markaðshyggju færði mér og öðrum sem þá sátu Alþingi og nefndist, Engin máltíð er ókeypis. Þetta gæti hafa verið bók Miltons Freedmans, There is no such thing as a free lunch.

Boðskapurinn var sá, ef ég man rétt, að allt í heimi hér kostaði. Á sérhvern hlut og sérhverja athöfn mætti setja verðmiða - og ætti að setja verðmiða. Þá fyrst værum við komin með rétta sýn á samfélag okkar og umhverfi.
Þetta kom upp í hugann þegar ferðamálaráðherrann sagði í fréttum fyrir fáeinum dögum að ríkisstjórnin væri að íhuga að bjóða okkur öllum í mat að nýju. Endurtaka mataborðið frá í vor, svo vel heppnað hafi það verið.

Ávísun sem við öll fengum þá til að hafa upp í matarreikning á veitingastað eða gistingu á hóteli hefði gert tvennt í senn, eflt innlenda ferðaþjónustu og stuðlað að því að við kynntumst betur landinu okkar. Sennilega er þetta rétt, ferðatékkinn örvaði án efa fólk til ferðalaga innanlands og þar með kunna að hafa tekist betri kynni með þjóð og landi. Þetta á aftur síður við nú eftir að þessi góðu kynni hafa tekist.
Hitt á þó enn við, að ferðatékki kemur matstöðum og hótelum til góða.

En þá kemur aftur að boðskap hinnar óvelkomnu bókar um máltíðina sem kostar.
Það er svo undarlegt hve sterk hóphyggjan í heiminum er. Einu sinni var ráðið við kreppu að eyða sem minnstu, skera niður og herða að. Þessi var raunin í síðustu kreppu þótt við sem sátum þá í ríkisstjórn reyndum að fara bil beggja í blöndu af niðurskurði og tekjuöflun.

Nú bregður hins vegar svo við að stjórnvöldin virðast líta svo á að peningar sem þau hafi til ráðstöfunar séu óþrjótandi. Ekkert sé svo dýrt að það megi ekki splæsa í það, þess vegna bjóða okkur öllum í mat.
Og framlag stjórnarandstöðunnar er að bæta í, hafa það bara þríréttað. Þannig hefur gagnrýnin verið úr þeirri átt, að grípa til margföldunartöflunnar.

En bíðum nú við. Í auglýsingadálkum blaðanna er farið að glitta í kosningar. Þannig auglýsir tiltekinn stjórnmálaflokkur að hann vilji báknið burt. Og í samræmi við það er sett fram fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fjögur ár. Og viti menn, það stendur til að minnka umsvif hins opinbera, „báknsins“,  á komandi árum. Hvað þýðir það? Væntanlega minna til Landspítalans, sjúkrahússins á Húsavík og ferjusiglinga til Eyja.

Gæti hugsast að allt þetta félli inn í eina heildstæða mynd? Það skyldi þó aldrei vera að þegar allt komi til alls hafi markaðshyggjufólkið forðum haft rétt fyrir sér, að engin máltíð sé ókeypis?
Með öðrum orðum, þegar ríkisstjórnin býður okkur í mat, þá kosti það sitt og því fyrirsjáanlegt að báknið þurfi að víkja.
En þá þurfum við líka að vera við því búin að taka upp prívatbudduna til að borga reikninginn hjá prívatklínikinni sem tæki við þeim rekstri sem Landspítalinn segði sig frá þegar það bákn hefur verið skorið niður við trog.
Þá væri aðeins eitt ósagt af hálfu veitandans: Verði ykkur að góðu!