Fara í efni

STYTTING VINNUTÍMA GAGNIST ÖLLUM


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.06.21.
Í sjálfsþurftarsamfélagi fyrri tíma var stórfjölskyldan meira og minna saman í allri sinni daglegu önn, í vinnu jafnt sem frístundum. Svo kom kapítalisminn með strangri verkaskiptingu, tilteknum þörfum sinnt hér og öðrum þar. Og síðan versluðu menn sín á milli með það sem framleitt var.

Þetta fyrirkomulag varð smám saman til að sundra fjölskyldunni. Fólk var nú kallað til verka í margvíslegri sérhæfðri framleiðslu gegn launum. Borgir og bæir mynduðust svo hýsa mætti launafólkið nærri sístækkandi vinnustöðum. Hver baukaði á sínu sérhæfða verksviði. Meðan foreldrar, fyrst feðurnir síðan einnig mæðurnar, unnu að heiman, voru börnin send á uppeldisstofnanir, barnaheimili og skóla. Þar sem vinnuþjökun var mikil sást fjölskyldan varla og þá örþreytt.

Krafan um styttingu vinnuvikunnar er tilraun til að gera þjóðfélagið þannig úr garði að hin sundraða fjölskylda geti sameinast á ný, ekki aðeins um helgar heldur helst á degi hverjum.

Krafan um styttingu vinnuvikunnar er þannig krafa um fjölskylduvænna og þar með barnvænna þjóðfélag. Mælistikan til að meta árangur þessarar stefnu ætti að sýna mannvænna samfélag þar sem okkur líði almennt betur – öllum.

Margt gerir styttingu vinnuvikunnar gerlegri en fyrir fáeinum áratugum. Við þekkjum það frá afgreiðslu í bönkum og stórverslunum, á flugvöllum og víðar að mörg viðvik, sem áður var þörf mikils mannafla til að sinna, framkvæmum við nú sjálf frammi fyrir tölvuskjá; eigum misjafnlega auðvelt með það en erum flest að læra. Vildum þó stundum geta rætt við manneskju þar sem vél ein er nú til svara. Eflaust er þetta þó kynslóðabundið. Ég spurði mann um daginn hvort hann gæti ráðlagt mér um eitthvað sem ég skildi ekki í símanum mínum. Spurðu sex ára barn, sagði hann, þá færðu svarið.

En svo er það hin hliðin á peningnum og það eru þau sem eru háð þjónustu þeirra sem nú vinna styttri vinnudag. Fyrst koma upp í hugann starfsemi og störf sem augljóslega krefjast viðveru, umönnunar- og uppeldisstörf, slökkvilið, sjúkraflutningar, lögreglan. Þarna og að sjálfsögðu víðar þarf starfsfólk af holdi og blóði að vera til staðar.

Fyrir nokkrum misserum boðaði ég til opinna funda um aðbúnað aldraðra á stofnunum en einkum þó í þjónustu við þá sem búa heima fyrir. Fram kom að starfsfólki í þessari þjónustu væri ætlað um of, vinnuálag væri of mikið og var þar tekið sem dæmi að aldrað fólk sem þyrfti aðstoð við að baða sig fengi aðeins hjálp til þess einu sinni í viku. Jafnvel til að ná þessu lágmarki þyrfti starfsfólkið að vera á stöðugum hlaupum. Þrátt fyrir fundahöld og greinarskrif voru viðbrögðin hjá Reykjavíkurborg engin.

Og nú skal vinnutíminn styttur án þess að starfsfólkinu sé fjölgað. Við það eykst álagið, þjónustan rýrnar og erfiðara verður að manna störfin.

Þarna þarf verkalýðshreyfingin að stappa niður fæti. Vinnutímastytting á að gagnast öllum, þeim sem veita þjónustuna og hinum sem eru henni háðir.

Augljóslega er eitthvað að fara úrskeiðis þegar ákveðið er að setja bann við því að útfarir fari fram eftir hádegið á föstudögum, annað gangi ekki upp vegna styttingar vinnuvikunnar. Samt er föstudagssíðdegið eftirsóttasti tíminn til slíkra athafna. Kirkjugarðarnir á höfuðborgarsvæðinu sjá sér með öðrum orðum ekki annað fært en að hafa þennan háttinn á svo naumt sé þeim skammtað. Þarf þá ekki að skammta betur? Kannski líka til að gera það kleift að ráða fleiri ungmenni til kirkjugarðanna til að snyrta og gróðursetja.

Og hvað með þá sem þurfa að leita aðstoðar hjá félagsstofnunum margvíslegum, þarf ekki að ráða þar fleira fólk til starfa svo þjónustutímann þyrfti ekki að stytta samfara styttingu vinnutíma starfsfólksins?

Gæti verið að í þjóðfélaginu mætti breyta áherslum eitthvað, til dæmis loka stórmörkuðum á næturnar en jarða á föstudögum? Og gæti verið að fækka mætti atvinnulausum en fjölga í símsvörun, draga þar úr notkun spiladósa sem spyrja okkur út í eitt hvort við viljum tala á íslensku eða ensku og hvort erindið sé þetta eða kannski hitt, og þá ef svo sé þá sé ráðlegt að ýta á takka númer fimm þar sem önnur spiladós tekur við eða við fáum leiðsögn um að spyrja bara á netinu. Aldrei nokkur mannleg snerting. Varla gerum við þjóðfélagið mannvænna með þessum hætti. Og munum að það á að vera mælistikan á árangur.