Á BARÁTTUDEGI GEGN EINELTI

kirkjuklukka Hallgrímskirkju.JPG

Hinn 8. nóvember er helgaður baráttu gegn einelti. Sá siður hefur verið að festast í sessi að hringt sé bjöllum og bílflautur þeyttar klukkan tólf á hádegi til að minna á ábyrgð okkar allra í að kveða niður einelti sem því miður þrífst allt um kring og veldur ómældri óhamingju.

Í átta ár – frá 2012 til 2019 skrifuðum við Helga Björk Grétu- Magnúsardóttir saman grein til birtingar í blöðum á þessum baráttudegi gegn einelti.

Árið áður en við hófum sameiginleg skrif okkar birti ég eftirfarandi á heimasíðu minni:

 “Forsaga þess átaks nær aftur til vormánuða ársins 2009 þegar hópur fólks bankaði á dyr stofnana og ráðuneyta til að vekja athygli á nöprum veruleika eineltis og skorti á úrræðum til að bregðast við. Í hópnum var Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir, sem hefur staðið löngum stundum við Alþingi og Stjórnarráð og minnt okkur öll á að aðgerðaleysi í eineltismálum verði ekki þolað. Á fundi sem ég átti með þessum hópi í Heilbrigðisráðuneytinu var sett fram vel rökstudd tillaga um sérsveit gegn einelti. Í framhaldinu var komið á samráðsvettvangi milli þriggja ráðuneyta um meðferð eineltismála, sjá nánar http://ogmundur.is/greinar/2011/11/frumkvaedi-helgu-bjarkar …”

Allar eru greinar okkar Helgu Bjarkar aðgengilegar á heimasíðu minni en eftirfarandi er slóð frá 2018, valin af handahófi: http://ogmundur.is/greinar/2018/11/til-umhugsunar-a-eineltisdegi

Helga Björk hefur hvatt kirkjunnar fólk til að hringja kirkjuklukkum á þessum tíma og hefur sagt mér að gjarnan hefði hún viljað fá páfann í lið með sér.

Ha? Páfann?

Hvers vegna ekki? Segir páfinn ekki að sá boðskapur sem hann flytur sé til varnar þeim sem búi við erfiðast hlutskipti í samfélagi manna? Og hverjir skyldu það vera ef ekki þeir einstaklingar sem eru settir utangarðs og ofsóttir. Ekki svo að skilja að páfann þurfi til, það sem þarf að gerast er að við, hvert og eitt okkar, látum ofbeldi ekki viðgangast í skjóli þagnar og aðgerðarleysis af okkar hálfu.

Megi flaut og klukknahljómur verða til að vekja sem flesta til vitundar um eigin ábyrgð.     

Fréttabréf