LÁTIÐ REYNA Á ÍBÚALÝÐRÆÐI


Birtist í helgarblaðí Morgunblaðsins 06/07.11.21.

Hengill.JPG

Fyrir stuttu síðan gekk ég sem oftar út á Suðurgötuna í Reykjavík, geri það nær daglega. Þá sá ég að í graseyjuna á milli akreina götunnar höfðu verði grafnar holur með jöfnu millibili. Sú spurning vaknaði hvort verið gæti að til stæði að setja niður tré þarna? Þar sem ég hef mjög ákveðna skoðun á mikilfengleik og fegurð Suðurgötunnar ákvað ég að kanna hversu djúpt ristu yfirlýsingar borgarfulltrúa um grenndarkynningu, samráð og íbúalýðræði.
Nú kann vel að vera að fyrir því sé almennur vilji að fá þarna myndarleg tré. Ef svo væri yrði ég að sjálfsögðu að sætta mig við þá niðurstöðu. En svo gæti líka verið að mitt sjónarmið hefði mikinn stuðning og þá væri varla óeðlilegt að borgaryfirvöld tækju tillit til þess og endurmætu áform sín í því ljósi.  

Hvað um það ég ákvað að láta á þetta reyna og sendi erindi í þar til gerða gátt hjá Reykjavíkurborg. Fékk ég vélrænt svar sem staðfesti móttöku á málaleitan minni.
Skal nú rakið hvernig þetta gekk fyrir sig.

Í vélrænu svari sínu endurtekur borgin erindi mitt á eftirfarandi hátt:

“Ábendingin sem þú sendir:
Grímshagi 6, 107 Reykjavík
Þetta er í bland spurning og ábending. Ég bý á Grímshaga, hliðargötu Suðurgötunnar í Reykjavík. Fegurð Suðurgötu er ótvíræð. Þegar ekið er suður þessa miklu götu blasir Keilir við henni miðri. Þetta er stórkostleg sjón sem hrífur mig á hverjum degi og hefur alla tíð gert.
Nú sé ég að búið er að grafa holur á eyjuna miðja og spyr hvort eigi að girða eða gróðursetja þar tré. Hið síðara fyndist mér mikið óráð í ljósi þess sem ég hef hér sagt. Vildi ég koma því sjónarmiði á framfæri. Þarf svona nokkuð ekki að fara í einhvers konar grenndarkynningu - varla minna mál en að setja kvist á húsþak?Gott þætti mér að fá viðbrögð.
Vélrænt svar borgarinnar: Ef þú hefur frekari spurningar þá má alltaf hringja í þjónustuver í síma 4 11 11 11.”

Í þessu fyrsta vélræna svari var erindi mitt sem sagt endurtekið og mér boðið að hringja í þjónustuver. Ég ákvað að bíða eftir svari borgarinnar við erindi mínu.
Svo kom hið eiginlega svar frá Reykjavíkurborg og var svohljóðandi:

”Takk aftur fyrir að senda ábendinguna Grímshagi 6, 107 Reykjavík til Reykjavíkurborgar.
Henni hefur nú verið lokað á eftirfarandi hátt: planta trjám”

Ég set engan punkt því ég vil hafa þetta nákvæmt.

Þetta var skondin reynsla eða eigum við kannski frekar að segja lærdómsrík?
Ég ákvað að láta það eiga sig að hringja í þjónustuverið því á vettvang hafði mætt vinnuflokkur til að hola niður trjám svo langt sem augað eygði, Keili til lítillar hrifningar grunar mig. En það sem ég hefði spurt í þjónustuverinu ef ég hefði á annað borð hringt í það, er hvers vegna þetta væri gert, væri það ef til vill  til kolefnisjöfnunar? Væri þetta hlutskipti Suðurgötunnar í viðureign mannkyns við lotfslagsvána? Nú vissi ég alla vega að ekki væri gróðursett lýðræðisins vegna. Eða vegna þess að vilji væri til að sýna fólki lágmarkskurteisi í samskiptum.

En ég leyfi mér að spyrja í fullri alvöru: Væri ekki rétt að svona mikið inngrip í umhverfið sem þetta óneitanlega er á þessu svæði þurfi að fara í grenndarkynningu?

En hvað um það, ég ætla að taka gleði mína á ný enda fengum við íbúarnir tækifæri til að gefa mismunandi framkvæmdum punkta í atkvæðagreiðslu nýlega. Ég studdi að komið yrði upp sjóbaðsaðstöðu við Ægisíðu. Valdi það umfram leikvöll fyrir aldraða. Fyrir miðri Ægisíðunni í grennd við Grímsstaðavörina má í seinni tíð sjá fólk ganga niður í fjöruna til að taka sundsprett. Nánast Í beinni línu niður af Suðurgötunni voru á sínum tíma búningsklefar fyrir sjóbaðendur í Sundskálavör. Þar lærði móðir mín að synda en hún ólst upp í Hólabrekku sem stendur við Suðurgötuna. Sjósund er með öðrum orðum ekki alveg nýtt af nálinni við þessa fallegu strandlengju.

Það sem verður nýtt er heimsborgarlegt yfirbragð Suðurgötunnar. Á mörgum breiðgötum erlendra stórborga hefur einmitt verið plantað trjám. Það kemur vel út. En vel að merkja, þar hafa menn engan Keili.

Fréttabréf