Fara í efni

MÆLI MEÐ EINARI MÁ

Var að lesa nýjustu bók Einars Más Guðmundssonar. Skáldleg afbrotafræði heitir hún. Las hana í einum rykk. Svo vel hélt hún mér.

Frásagnarlistina hefur Einar Már á sínu valdi. Fannst ekki alveg laust við að hann væri stundum ögn að skopast að þeirri frásagnarhefð sem hann sjálfur er hluti af og teygir sig langt aftur, knappur stíll með endurtekningum og áminningum um að þessa sé áður getið og að hinu verði gerð skil síðar. Maður heyrir frásögnina, hún er talað mál fært í letur.  Svo er það innsæið, ekki skortir það, skilning höfundar á manneskjunni nánast óháð tíma og rúmi.

Það er þó tíminn og rúmið sem gera þessa bók Einars Más sérstaklega áhugaverða. Sögusviðið er í Flóanum, við sjóinn. Það er rúmið. Tíminn er aftur 19. öldin öndverð.

Við finnum fyrir nýafstöðnum Móðuharðindum og annarri óáran. Svo er Jörundur þarna, franska byltingin og Napóleonsstríðin með tilheyrandi þrengingum í Danaveldi. Allt er þetta hluti af umgjörð sögunnar, eins konar leikmynd í kringum það sem undir kraumaði á Íslandi á þessum tíma, gamla bændasamfélagið að riðlast og í burðarliðinn að færast nýtt samfélag, kapítalismi með nýjum húsbændum og hjúum, ekki þó alveg kominn í ljós en kollurinn sýnilegur. Þegar Einar Már segir frá glæpum í Flóa á fyrstu áratugum 19. aldar var upplýsingaröldin að hefja síðbúna innreið á Íslandi en að sjálfsögðu enn langt í me-too nema þá í vitund höfundar. Þar kallast á nútíð og fortíð.
En þetta er sem sagt umgjörðin. Við skiljum hana því baksýnisspegillinn er okkar. Sögupersónur Einars Más fundu hins vegar fyrir henni, skynjuðu hana en aðeins óljóst.

Sagan Skáldleg afbrotafræði er sannsöguleg sem kallað er, byggð á heimildum að nokkru leyti. Skáldskapurinn held ég þó að sé engu síður sannur en heimildirnar, komist jafnvel nær sannleikanum en þær gera. Þannig eru góðar bókmenntir. Gefa lesanda innsýn í þætti mannlífsins sem hann hafði ekki komið auga á. Ég leyfi mér að halda því fram að með því að stúdera skáldlega afbrotafræði undir handleiðslu þessa fyrrum verðlaunahafa Norðurlandaráðs megi öðlast betri söguskilning á fyrstu áratugum 19. aldar en maður áður hafði.

Þannig sjáum við „athafnamenn“ okkar samtíma í nýju sögulegu ljósi þegar við speglum þá í ýmsum þeim karakterum sem koma við sögu. Ég skellti nánast upp úr þegar afbrotafræðingurinn Einar Már setti menn og málefni í samhengi. En þarna voru ekki bara glæponar. Fjarri því. Í flóru mannlífsins mátti sjá hugsjónafólk og Sölkurnar Völkurnar og svo allt það fólk sem bar uppi samfélagið með starfi sínu og striti. Þarna var græðgin og grimmdin en líka réttlætiskenndin og góðmennskan. Hún átti þó erfitt uppdráttar.  Misréttissamfélag allra tíma er á sveif með hinu slæma í manninum. Þannig vill það vera. Spurningin er hvernig okkur tekst að smíða samfélag sem framkallar það besta og dregur úr því versta. Það er ekki lítið verkefni. En því þarf að sinna þótt hægt miði.

Einar Már segir í bókarlok að sagan sé ekki öll. Ég efast ekki um að honum væri í lófa lagið að halda áfram að fylgja sögupersónum sínum fram eftir 19. öldinni og hugsanlega fram á næstu öld. Þetta er þeim mun auðveldara fyrir þá sök að höfundur neitar að virða landamæri lífs og dauða. Í Skáldlegri afbrotafræði er jafnvel meira líf í hinum dauðu en í þeim sem þó lifðu lífinu lifandi.

Það mun koma í ljós með tíð og tíma hvað það þýðir að sögunni sé ekki lokið.

En hvað sem því líður þá var þessi skammtur góður.