Fara í efni

HUGLEIÐINGAR UM FLUGELDA OG SPILAVÍTI

Fjáröflunarleiðir Háskóla Íslands, Landsbjargar og Rauða krossins eru mismunandi þótt allir þessir aðilar nýti sér veikindi spilafíkla.

Háskóli Íslands fær að sjálfsöðgu rekstrarfé úr ríkiskassanum og rekur gamalgróið happdrætti sitt sem nýtur velvilja stuðningsmanna HÍ. Um áratugi hafa þeir keypt miða í happdrættinu, skólanum og starfsemi hans til stuðnings. Þetta happdrætti er gerólikt spilakössunum sem Háskólinn rekur einnig.  Þá hafa sálfræðingar í Las Vegas hannað til að græða sem mest á fólki sem ekki er sjálfrátt gerða sinna. Fram hefur komið að á þriðja hundrað starfsmanna Háskólans hafa lýst því yfir að þeir vilji að spilavítum með þessum kössum verði lokað og þar með bundinn endi á þá niðurlægingu sem þessum rekstri fylgir. Það er góðs viti.

Rauði krossinn nýtur þess fjárhagslega að vera í samstarfi við ríkið á ýmsum sviðum og höfðar jafnframt til almennings í söfnunum sér til styrktar. Síðan eru það spilakassarnir en gagnvart kröfum um að þeim verði lokað hefur Rauði krossinn sýnt furðulegt ábyrgðarleysi gagnstætt SÁÁ sem sagði sig frá rekstrinum og uppskar virðingu og lof.

Slysavarnarfélgið Landsbjörg fær einnig beinan og óbeinan stuðning frá ríkinu en reiðir sig þó fyrst og fremst á margvíslegar safnanir og síðan sölu flugelda. Sjálfur kaupi ég flugelda hjá hjálparsveitunum á hverju ári og geri þá játningu að mér finnist hressileg flugeldaveisla á áramótum eftirsóknarverð stemningsstund sem ég vil alls ekki missa. Er ég með öðrum orðum ekki í hópi þeirra sem vilja banna flugelda á áramótum. Sú tilhneiging hefur orðið ríkari með hverju árinu að skjóta flugeldum upp við áramótaskiptin fyrst og fremst en síður er sprengt í löngum aðdraganda áramótanna sem áður tíðkaðist. Þetta er jákvæð þróun.
Ég er mikill stuðningsmaður björgunarsveitanna, tek þátt í öllum söfnunum þeirra, gef allar dósir og flöskur þeim til styrktar, sprengi á áramótum en harma hins vegar að Landsbjörg láti ekki af siðlausum rekstri spilakassa. Gæti þetta orðið árið sem Landsbjörg sæi að sér?

Um jólin varð nokkur umræða um spilavítin, meðal annars í vísi.is og í Bítinu á Bylgjunni þar sem ég sat fyrir svörum:

https://www.visir.is/g/20212198457d/segir-spila-fikla-fjar-magna-kaup-hi-a-hotel-sogu