Fara í efni

ÖRLÆTI  LYFTIR ANDANUM


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15/16.01.22.
Veraldlegur auður er afstæður. Við erum minnt á þau sannindi í Biblíunni í dæmisögunni um fátæku ekkjuna sem gaf “tvo smápeninga” til stuðnings nauðstöddum. Jesús Kristur vakti athygli á því að þótt framlag hennar hefði verið minna en margra sem bjuggu við meiri efni þá væri munurinn sá að efnafólkið hefði “gefið af allsnægtum sínum” en hún “af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.”

En á þessari dæmisögu um hve afstæður veraldarauðurinn kann að vera eru fleiri víddir.

Ég hef grun um að hinum efnuðu reynist stundum ekkert síður erfitt að gefa en þeim sem ekki eru aflögufærir. Þegar allt kemur til alls held ég að það krefjist einmitt mikils örlætis að gefa frá sér mikinn auð jafnvel þótt hvergi sé hróflað við lífsbjörginni eins og gerðist hjá fátæku ekkjunni fyrir tvö þúsund árum þegar hún gaf smápeningana tvo.

Þessar vangaveltur um skort, auð og örlæti komu upp í hugann við nánast ótrúlega höfðinglega gjöf dánarbús hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar, sem jafnan var kenndur við Síld og fisk, til þjóðarinnar og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu. Þau létu eftir sig miklar eignir og þá ekki síst sannkallaðan fjársjóð í listaverkum. Í fyrri viku var hann afhentur þjóðinni til eignar.

Þá reis minning Þorvaldar og Ingibjargar og afkomenda þeirra hátt.

Í viðtölum við fjölmiðla sagði Katrín Þorvaldsdóttir, fyrir hönd erfingja dánarbúsins, að foreldrar sínir hefðu gert sér grein fyrir því frá upphafi að þau væru að safna listaverkum fyrir íslensku þjóðina eins og þeir sem söfnuðu íslensku handritunum svo að þjóðin gæti notið þeirra um ókomna tíð. Hvílíkur minnisvarði um stórhug!

En minnisvarða reisti Þorvaldur einnig með afstöðu sinni til samfélags síns. Í útvarpsþætti fyrir fáeinum dögum mátti heyra viðtal sem tekið var við hann á velmektarárum hans. Það væri lítið varið í að eiga listaverk, sagði hann, sem enginn fengi notið. Eflaust væri hægt að geyma fé í listinni, það gerðu sumir. Það myndi hins vegar veita þeim meiri gleði að lána listaverkin í skóla og byggingar þar sem fólk kæmi saman. Þannig mætti fegra umhverfið og bæta mannlífið. Fegurð í umhverfinu og vellíðan í samfélaginu færi nefnilega saman. Og nú hefur ekki verið látið sitja við það eitt að hafa málverkin til sýnis þannig að sem flestir geti notið heldur hefur eignarhaldið líka verið fært til okkar allra.

Það er ástæða til að gleðjast yfir hinni miklu listaverkagjöf. Bæði vegna þess að listaverkin eiga eftir að veita okkur ánægju og gleði en ekki síður vegna hins að nú skapast tilefni til að ræða um viðhorf og víddir sem eiga erfitt uppdráttar á tímum þar sem margir efnamenn vilja sem minnst af samfélagi sínu vita nema til þess eins að græða á því.

Ekki er það ætlunin með þessu skrifi að troða Þorvaldi í Síld og fiski inn í Biblíuna þótt í hana hafi þar verið vitnað. En langleiðina þangað erum við þó komin. Því með gjöf sinni hafa merkishjónin Þorvaldur og Ingibjörg og afkomendur þeirra minnt með aðdáunarverðum og eftirminnilegum hætti á það hve mikilvægt það sé fyrir okkur að hugleiða hvað það er sem gefur lífinu gildi.