Fara í efni

HÁRRÉTT HJÁ FORSETA ASÍ

2007 ... TAKA 2? er yfirskrift pistils Drífu Snædal forseta ASÍ. Í örstuttu en hnitmiðuðu máli dregur hún upp mynd þar sem hún líkir stöðu mála nú við aðdraganda hrunsins, bónusar og gróði jafnframt því sem einkavæðing er á borði stjórnvalda. 

Drífa skrifar, m.a.: "Það eru stef í samfélaginu sem minna óneitanlega á aðdraganda hrunsins; bankasala og ofurbónusar og í viðskiptafréttum má lesa um áhyggjur af því að að fyrirtæki erlendis séu að bera víurnar í okkar afburða viðskiptasnillinga og því þurfi þeir hærri laun og meiri bónusa. Á sama tíma hefur launafólk þessara sömu fyrirtækja tekið á sig óvissu, álag og í einhverjum tilvikum kjaraskerðingar í gegnum lækkað starfshlutfall eða vegna uppsagna og endurráðninga á lakari kjörum.
Önnur kunnugleg stef frá því fyrir hrun eru hugmyndir um að láta fjármagnseigendur í auknum mæli stýra velferðarþjónustu, nú heitir þetta: „Það skiptir ekki máli hver veitir þjónustuna“. Jú það skiptir máli og við vitum afleiðingarnar af því að fjármagnseigendur eigi að sinna grunnþörfum."

Hér er skýr og afdráttarlaus rödd, varnaðarorð,  sem stjórnvöldum ber að hlusta á, reyndar ekki bara stjórnvöldum heldur samfélaginu öllu!  

Hér er allur pistill forseta ASÍ: https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/pistill-forseta-2007-taka-tvo/