Fara í efni

SJÁLFBÆRNI Í RUSLI


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12/13.03.22.
Charles Darwin, höfundur þróunarkenningarinnar átti börn, sem aftur áttu börn og koll af kolli. Þannig varð til Felix John Padel, langa- langafabarn Darwins. Það sem þeir áttu sameiginlegt langa- langafinn og langa- langafabarnið var að þeir hugsuðu báðir út fyrir rammann eins og það stundum er orðað þegar ekki er gengið í troðnar slóðir.

Langa- langafinn hafði áhrif á skilning mannkynsins á sjálfu sér og þá aðallega hvaðan það væri komið en langa- langafabarnið var hins vegar með augun á hvert stefndi. Felix John Padel var með hugann við hófsemi, einfaldleika, virðingu fyrir náttúrunni og þá einnig úrganginn og spilliefnin sem nú ógnuðu jarðarlífinu. Allir þyrftu að koma auga á mál málanna, nefnilega að sjálfbærni væri í rusli!

Við Felix John Padel vorum samferða í Tyrklandi í byrjun árs 2020 í sendinefnd sem kennd var við Imrali, fangaeyjuna í Marmarahafi undan strönd Istanbúl, Miklagarðs sem áður hét á íslensku. Á þessari eyju er alræmt fangelsi þar sem Abdullah Öcalan leiðtogi Kúrda hefur verið í haldi síðan 1999. Imrali sendinefndin var komin til Istanbúl að krefjast þess eina ferðina enn að Öcalan yrði sleppt úr haldi. En nóg um það í bili.

Aftur að langa- langafabarni Darwins sem hreif mig mjög með tali sínu um mannréttindi og umhverfismál. Þannig var að Felix John Padel var búsettur á Indlandi og hafði greinilega lagað sig að lífsvenjum þeirra sem engu sóa. Hann sagði mér að hann gæfi litið fyrir allan umhverfisvaðalinn á norðurhveli jarðar. Einna verstir væru rafhlöðubílarnir sagði hann. Eða hafa menn hugleitt hvernig rafhlöðurnar eru gerðar og hvert þær fara eftir að þær verða gagnslausar. Og ekki bara þær heldur allt draslið frá ríka heiminum? Þessu er öllu hent í okkur.

Og kemur þar að tillögu þessa Darwins okkar kynslóðar: Hver staður verði sjálfbær um rusl. Það mun þýða að hvert svæði þarf að finna út hvar það hendir frá sér úrganginum – ekki í Indlandi eða öðrum fátækum hlutum heimsins heldur heima hjá sér.

Eitt það besta sem gerst hefur hér á landi er flokkun úrgangs. Ekki svo að skilja að allt sé unnið með því að flokka því við þurfum að vera ábyrg fram á þá stund að úrganginum er endanlega komið fyrir. En flokkunin hefur engu að síður kennt okkur margt um okkur sjálf, hvers við neytum og hverju við hendum frá okkur. Ég veit ekki hvort ég er verri en aðrir en óhugnanlega fljótt þykir mér tunnan undir plastið fyllast.

Nýlega var sýnt í fréttum hvernig plast ættað frá Íslandi hafði dagað uppi í Svíþjóð þegar fyrirtækinu sem tekið hafði að sér förgun þótti nóg komið. Síðan höfum við séð skipin sem látin eru “úreldast” í fátækra manna höfnum suður í álfum og margt, margt fleira höfum við séð við öflun hráefna og síðan förgun þeirra.

Hvernig væri að Íslendingar söðluðu um og í stað þess að gróðursetja eina ösp fyrir hverja drýgða synd og í stað þess að fórna íslenskum náttúruperlum til að þykjast vera að „taka þátt“ með enn fleiri virkjunum, en breyta í raun engu öðru en auðvelda þeim lífið sem nú fjárfesta til að græða á grænu, þá tækjum við þá ákvörðun að ganga sjálf frá öllum okkar úrgangi. Við gengjum með öðrum orðum frá öllu því sem við bærum ábyrgð á hér heima, hjá okkur sjálfum, í eigin heimalandi.

Gæti verið að við færum þá betur með? Hefur endurholdgaður Darwin enn lög að mæla?