Fara í efni

ÞAÐ Á AÐ SEGJA ÖLLLUM SATT UM NATÓ LÍKA BÖRNUM



Umræðan um innrásina í Úkraínu er smám saman að taka breytingum þótt enn séu þeir sem leyfa sér að setja málin í sögulegt samhengi, leita skýringa og lausna annarra en að stigmagna stríðsátök, sakaðir um meðvirkni með rússneska innrásarliðinu.

Gott Silfur

Ágætt innlegg í umræðuna var Silfrið á Ríkisútvarpinu sunnudaginn 20. mars þar sem rætt var um viðskiptaþvinganir, auðlindir og síðan botnað með viðtali Egils Helgasonar við Ólaf Ragnar Grímsson fyrrverandi forseta. Allt þetta þótti mér vera afbragðs gott. Silfrið: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/silfrid/32202/9j38l9

Silfrið.PNG

Ólafur Ragnar sagði einmitt mjög réttilega að menn yrðu að hafa til að bera heiðarleika og hugrekki til að ræða þessi mál opinskátt og að ekki mætti gleyma fórnarlömbunum þegar rætt væri um vænlegstu leiðir til að binda enda á hryllinginn. Þar ætti ekki að gefa sér að skynsamegar lausnir og stefna NATÓ færu saman. Þetta var inntakið í málflutningi Ólafs Ragnars.
Ég staldraði hins vegar við það þegar hann minnti á að Íslendingar – hann sjálfur í umboði þáverandi ríkisstjórnar -  hefðu á tíunda áratugnum gengið fram fyrir skjöldu til að styðja NATÓ aðild Eystrasaltsríkjanna. Það var að mínu mati allt annars eðlis en að hafa forgöngu um að styðja sjálfstæði þeirra sem var aðdáunarvert, varla hið síðara enda kemur nú í ljós við sögulega upprifjun hve vafasöm þessi afstaða íslenskra stjórnvalda var á þessum tíma  því meginstraumurinn var í þá átt að tryggja friðinn með afvopnun en ekki hervæðingu. Þannig benti Ólafur Ragnar á að Frakkar og Þjóðverjar hefðu viljað aðra þróun á þessum tíma en færa landamæri NATÓ austur á bóginn. Gott ef ég man það ekki rétt að Íslendingar hafi eining verið háværir í stuðningi við NATÓ aðild Póllands. Ég minnist þess að hafa gagnrýnt þetta á þessum tíma, og furðað mig á skilyðrinu sem fylgdi um vopnakaup Pólverja við inngönguna í NATÓ. Hagsmunir vopnaframleiðenda eru aldrei fyrir borð bornir þegar NATÓ er annars vegar.

Current concerns.PNG

Þess má geta að mjög greinargóð úttekt á þessari þróun allri er í nýútkomnu hefti Current Concern. Þar eru greinar eftir Hans Köchler forstöðumann  International Progress Organization í Vínarborg, sem er rannsóknarstofnun í friðarmálum, og fleiri sem ég hvet lesendur til að gefa sér tíma til að gaumgæfa. Það er þess virði:  https://www.zeit-fragen.ch/fileadmin/user_upload/zeit-fragen/eins/ganze_Ausgaben/2022/CC_special_edition_2-2022.pdf

Enn Ólafur Ragnar

Annað sem ég staldraði við í máli Ólafs Ragnars var sú tilgáta hans að NATÓ aðild Íslands verði að öllum likindum varla lengur til umræðu því forysta VG, þess flokks sem hefur gefið sig út fyrir að vera andvígur NATÓ, styddi nú bandalagið með veru sinni á öllum leiðtogafundum og tæki undir allt sem þar færi fram.
Það er vissulega rétt að þar með verður ljóst að á Alþingi mun ekki fara mikið fyrir vilja til að Ísland segi sig úr NATÓ þótt einn Pírati, Andrés Ingi Jónsson, hafi gert um það tillögu og er það þakkarvert. Það er að sjálfsögðu rétt hjá Ólafi Ragnari að stefnubreyting forystu VG skiptir gríðarlegu máli. Það er mikill ábyrgðarhluti að leggja yfirlýsta stefnu stjórnmálaflokks til hliðar og gera hana að engu eins og VG hefur nú gert gagnvart NATÓ aðildinni og nýtilkominni fylgispekt við þetta hernaðarbandalag. Ef tiltekin pólitísk sjónarmið eru tekin af dagskrá stjórnmálaumræðunnar er hætt við að nýjar kynslóðir heyri ekki þau rök sem heyrast þurfa eigi að halda málefninu lifandi. Og svo er það hitt að flokksmenn margir hverjir – alltof margir í öllum flokkum - telja að tryggð og samstaða felist í stuðningi við flokk og forystu hans og því litið á gagnrýni sem árás á þá sem stýra þar för. Þetta er stórvarasöm afstaða en ég kann ekki aðra skýringu á þögn flokksmanna VG um þessa stefnubreytingu forystu flokksins.

Svo er það barnafræðslan

krakkarúv2.PNGEkki bætir svo úr skák þegar börnunum er sagt rangt til um eðli hernaðarbandalagsis eins og gert var í Krakkafréttum Ríkisútvarpsins í byrjun vikunnar. Þar lýsti Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, NATÓ sem varnarbandalagi vestrænna ríkja sem bundist hefðu fastmælum um að verja hvert annað ef á þau yrði ráðist. Þannig kann það vissulega að hafa verið í árdaga en það er ekki lengra síðan en í ágúst að NATÓ hvarf frá Afganistan eftir rúmlega tveggja áratuga hersetu og landið í rúst. Ekki hafði Afganistan ráðist á NATÓ ríki né hafði Líbía gert það þegar NATÓ rústaði það land árið 2011. Síðan eru það árásirnar á Sýrland og ekki þolir allt sem NATÓ aðhafðist á Balkanskaga skoðun. Þar voru gerðar mannskæðar árásir á borgaraleg mannvirki.
Það er því hrein afbökun á sannleikanum að lýsa NATÓ með þessum hætti og það í “Krakkasjónvarpi” sem hugsað er sem uppeldis- og fræðsluþáttur fyrir börn. Það má reyndar deila um það hvort yfirleitt eigi að aðgreina fréttir fyrir börn annars vegar og fullorðna hins vegar. Ég hef mínar efasemdir um þá einföldun sem þetta býður upp á fyrir börnin. Í það minnsta verður slík umfjöllun að vera sérlega vönduð svo hún verði ekki afvegaleiðandi. 

Hvernig ljúka a stríðinu

Það sem krakkarnir þurfa að fá að vita er að á Íslandi vilja allir að endi verði bundinn á þetta hræðilega stríð og friður tryggður til frambúðar. Ágreiningurinn snýst um hvort það eigi að gera með þátttöku í hernaðarbandalagi og auknum vígbúnaði eða með því draga úr hervæðingu: Sýna strax vilja í verki í þessa veru í stað þess að flytja fleiri vopn á vettvang eins og íslensk stjórnvöld stæra sig af að hafa tekið þátt í að gera. Biden Bandaríkjaforseta hefði verið sæmra að í stað æsingatals í Póllandi fyrir fáeinum dögum um valdhafa Rússlands (eða var hann að tala um “regime change” eins og í Írak, Líbíu og Sýrlandi þar sem að sögn átti að skipta átti út illmennum en endaði með mannfalli hundruða þúsunda og milljóna?) að lýsa því yfir að þegar í stað verði hafist handa um að draga úr vígbúnaði í Evrópu að því tilskyldu að Rússar dragi her sinn til baka þegar í stað og sest yrði að samningaborði með það fyrir augum að hverfa frá hervæðingarstefnu og tryggja þannig frið til frambúðar. Fráleitt? Síður en svo, miklu líklegra til að leiða til farsællar niðurstöðu til frambúðar fyrir saklausan almenning en að stórauka hervæðingu eins og NATÓ stefnir nú að.
Og almennt um NATÓ er það að segja að það er ekki fyrst og fremst varnar- og friðarbandalag. Saga þess undanfarin ár og áratugi er blóði drifin í árásum á þjóðir sem ekki þýðast þau öfl sem vilja sitja að auðlinum heimsins og ráða þar öllu. Þetta er ein megin ástæða þess að Vinstrihreyfingin grænt framboð gerði það að grundvallarstefnumarkmiði við stofnun flokksins að beita sér af alefli fyrir úrsögn úr þessu bandalagi. Ef þetta er stefnan þarf að fylgja henni í verki. Ekki segja eitt en gera annað. Með því móti er allri baráttu drepið á dreif. Einmitt það er að gerast. Og þess vegna er okkur mörgum mikið niðri fyrir.
Það er beinlínis rangt og afvegaleiðandi að lýsa hernaðarbandalaginu NATÓ sem sérstökum vini sem eigi það markmið eitt að verja mannfólkið í Bandaríkjunum og vestanverðri Evrópu fyrir hinu illa. Þetta er einfaldlega ekki sannleikanum samkvæmt eins og dæmin sanna.

Krakkafréttir um NATÓ: https://www.ruv.is/krakkaruv/spila/krakkafrettir/30712/9jbgbt

Ýmsar slóðir

ÖJ um Úkraínu, NATÓ og Evrópusambandið hjá Kristjáni Kristjánssyni á Sprengisandi Bylgjunnar 13.03. ásamt Lilju Alfreðsdóttur ráðherra:
https://www.visir.is/k/50fca134-e7cf-4cbb-a059-72c6940f044d-1647171821313

ÖJ um Úkraínu, NATÓ og stjórnmál almennt í Pressunni á hjá Sigurjóni Egilssyni á Hringbraut 3. 03. ásamt Val Grettissyni. Vék ég meðal annars að hernaði Tyrkja handan landamæra sinna við Írak og Sýrland, sagði þá grunaða um að beita “kjarnorkuvopnum” en ætlaði að segja efnavopnum. Annað hvort tók enginn eftir þessu eða menn hafa skilið þetta rétt þrátt fyrir mismælin : https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/pressan/3-mars-2022-ogmundur-jonasson-og-valur-grettisson/

Vindhaninn á Samstöðinni þar sem Stefán Pálsson færir góð rök fyrir friðarstefnu í samtali við Trausta Breiðfjörð Magnússon stjórnanda þáttarins og Friðjón Friðjónsson varaþingmann Sjálfstæðisflokksins, nefnilega að Ísland standi utan NATÓ. Nefnir hann Kosta Ríka í Mið-Ameríku sem dæmi um hvert hlutskipti Íslands mætti verða sem friðflytjandi. Fyrrnefndur Hans Köchler nefnir Austurríki sem annað dæmi um friðarhlutverk rikja: https://www.youtube.com/watch?v=1rf5GeCPhUc

TFF2.PNG

Hér er að finna athyglsiverðar greinar, meðal annars um makalaust viðtal við Anders Fogh Rasmussen, fyrrum aðalframkvæmdastjóra NATÓ þar sem hann segir NATÓ geta sprengt Pútín í tætlur enda hafi NATÓ fjárfest tíu sinnum meira í vopnum en Rússar. 2016 skrifaði þessi maður bókina The Will to Lead, þar sem hann talaði fyrir forræði Bandaríkjanna í heimsmálum. Nauðsynlegt væri að 'restore America's role as a global leader': TFF Transnational Foundation TFF@transnational.org (Takið eftir hve mörgum vídeófréttum hefur verið eytt af samfélagsmiðlum vegna ritskoðunar væntanlega í þágu lýðræðis). Hér talar Jan Oberg forstöðumaður TFF um hlut fjölmiðla og akademíu: https://vimeo.com/557705016?embedded=true&source=video_title&owner=10132307

Hér skrifar Jonathan Steele sem á sér litríkan feril að baki í fremstu röð fréttamnna heimsins. Bók hans The Ghosts of Afghanistan sagði nákvæmlega fyrir um hvernig herleiðangri NATÓ í því landi myndi lykta: https://www.counterpunch.org/2022/03/07/ukraines-grim-choice-why-surrender-may-be-the-honorable-option/

Hér er rætt við Ray McGovern (fyrrum starfsmann bandarísku leyniþjónustunnar CIA) og John Mearsheimer (prófessor í alþjóðastjórnmálum við Chicago háskóla): https://www.youtube.com/watch?v=ppD_bhWODDc

Fyrirlestur Mearsheimers frá 2015: https://www.youtube.com/watch?v=JrMiSQAGOS4

Mearsheimer 2020: https://www.youtube.com/watch?v=nZVIaXFN2lU

Hér er fyrirlestur fransk/rússnesk/bandaríska fréttaskýrandans og útvarpsmannsins Vladimirs Pozners sem hann flutti við Yale háskólann í Bandaríkjunum 2018: https://www.youtube.com/watch?v=8X7Ng75e5gQ

Hér er örstutt yfirlit indverska fréttaþáttarins Gravitas: https://youtu.be/TzgPJeYZaOU