Fara í efni

VIÐ EIN, ALMENNINGUR HEIMSINS, GETUM BJARGAÐ JULIAN ASSANGE

Innanríkisráðherra Breta vill að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, verði framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann verði leiddur fyrir rétt og látinn svara til saka fyrir að koma á framfæri upplýsingum sem ráðandi öfl þar og víðar vilja að þagað verði um.

Þar var komið í langvinnri deilu um framsal Assange frá Bretlandi að innanríkisráðherrann, Priti Patel, gat tekið ákvörðun um að Asssange yrði ekki framseldur. Það gerði hún ekki og sagði að í Bandaríkjunum fengi hann án efa réttláta málsmeðferð!

Áfram mun málið enn um sinn velkjast í breska dómskerfinu og auk þess fara fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Niðurstaðan í dag kemur ekki á óvart. Ég hafði einhvern tímann á orði að í raun væri það ekki Julian Assange sem biði eftir dómi heldur breska réttarkerfið. Síðan hef ég sannfærst um að breska réttarkerfið er ekki upp á marga fiska þegar stór-pólitískir hagsmunir eru í húfi. Og um það snýst mál Julian Assange, pólitíska hagsmuni.

Þar eiga Bandaríkin og bandamenn þeirra þá hagsmuni að um stríðsglæpi þeirra í Írak, Afganistan, Líbíu og víðar verði þagað, að ekki verði upplýst um pyntingar í Guantanamó og öðrum fangelsum þar sem „óvinir“ voru meiddir og pyntaðir án aðkomu réttarkerfisins, að þagað verði um alþjóðavæðingu á forsendum auðhringa, að mengunarglæpir vestrænna stórfyrirtækja í Afriku komist ekki í hámæli  ... um allt þetta hefur Wikileaks upplýst og margt fleira sem hefur reynst slíkur þyrnir í augum ráðandi afla auðvaldsheimsins að „Íslandsvinurinn“ Pompeo fyrrum forstjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, og síðar utanríkisráðherra BNA, sagði það forgangsverkefni að koma Wikileaks fyrir kattarnef.

Það hlálega er að nánast gervallur fjölmiðlaheimur veraldarinnar hefur birt fréttir sem byggja á upplýsingum frá Wikileaks. Sá heimur og við öll sem höfum fagnað því að fá þessar fréttir eigum Wikileaks skuld að gjalda og að mínu mati ber okkur því siðferðileg skylda til að rísa upp Julian Assange til varnar.

Við ein getum bjargað Julian Assange og Wikileaks úr klóm þeirra sem vilja hylma yfir og þagga umræðu um stríðsglæpi, mengunarglæpi og margvíslegt misferli í skjóli ríkisvalds. Helstu fjölmilðar heims munu ekki gera það. Þeir virðast standa of nærri valdinu.

Fylgjumst með. En látum jafnframt frá okkur heyra. Málið snýst um okkur. Hvað okkur er leyft að heyra – hvað við megum vita. Finnst okkur þetta boðlegt?  Og ef ekki, ætlum við þá að láta bjóða okkur þetta?
Að sjálfsögðu ekki!