Fara í efni

TÍMARNIR BREYTAST OG MENNIRNIR MEÐ, EÐA…


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 02/03.07.22.
Ef til vill ætti þetta að vera öfugt, að það séu mennirnir sem breytist og tímarnir með. Hvor nálgunin er rétt væri þá háð því hvort það er tíðarandinn sem breytir mönnunum eða mennirnir tíðarandanum. Auðvitað hlýtur að vera samspil þarna á milli.
En fleiri fyrirvara þarf að hafa til að þetta gamla orðatiltæki gangi upp hvort sem er réttsælis eða rangsælis. Þar er sá mestur fyrirvarinn að ekki er hægt að alhæfa um alla menn. Sumir láta stjórnast á meðan aðrir stjórna.
En eitt er víst að tíðarandinn breytist stöðugt enda forgöngumenn breytinga stöðugt að. Og oftar en ekki eru þeir að laga veruleikann að breytilegum hagsmunum sínum. Þeirra streð gengur þá út á að sannfæra okkur um að þeirra lausn sé hin ákjósanlegasta fyrir alla. Og smám saman verður þeirra lausn viðhorf allra, tíðarandinn í samtíðinni.
Andvaraleysið er verst. Í Mein Kampf Hitlers var sagt það sem segja þurfti. En enginn las. Þótt ég líki ekki auðkýfingunum sem safnast árlega saman í Davos í Sviss að leggja línurnar fyrir framtíðina við Hitler þá væri almenningi í heiminum hollt að kynna sér stefnuskrá þeirra um hvernig megi græða á grænu í hlýðnum og undirgefnum heimi. Því áfram ætla þeir að græða, engar efasemdir um útþensluhvata kapítalismans sem hlýtur þó að vera rót vandans.
Og við skipunum frá Davos er tekið með andheitum yfirlýsingum um að nú þurfi kerfislæga hugarfarsbreytingu. Ekki gangi lengur að verja Þjórsárverin og Jökulsár Skagafjarðar eða fúlsa við vindmyllum þótt einn og einn örn og ein og ein lóa týni lífi í hreyflunum og kyrrðin sé fyrir bí í heiðalandinu.
“Við þurfum líka að marka ramma utan um það hvernig arðurinn af nýrri auðlind – beislun vindorkunnar – renni til samfélagsins,” sagði forsætisráðherrann í ræðu á þjóðhátíðardag. Vissulega þarf að gera það. En þarf ekki að taka áður umræðu um það hvort stefna stjórnvalda í anda Davos skuli yfirleitt tekin upp? Hér er nefnilega kerfisbreytingin á ferðinni, nýjum tíðaranda rudd braut. Forsætisráðherra sló ýmsa varnagla en boðskapurinn hlýtur að vera orðinn öllum augljós: Til að bjarga heiminum þarf orkuskipti strax, það hljóti að vera krafa umhverfissinna sem aftur þýðir að varðstaðan um náttúruperlur færist neðar á forgangslistann.
Þessum gerbreyttu áherslum fagna fjárfestar ákaft. En einhverjir hljóta að klóra sér skilningsvana í kollinum þegar haft er í huga að heitstrengingarnar í loftslagsmálum koma fram samhliða því að hervæðing heimsins fær stuðning Íslands og mengandi herþotur og önnur stríðstól eru aufúsugestir á Íslandi sem aldrei fyrr.
Annað dæmi um kerfisbreytta hugsun sem lætt er inn, sem þó ekki er hagsmunatengd á sama veg og markaðsvæðing náttúruverndar, er menningin og íslensk tunga. Þegar mín kynslóð, fædd um miðja síðustu öld, var að alast upp var það skilningur hins vakandi manns að standa ætti vörð um íslenska menningu og íslenska tungu og þá gegn straujárni alþjóðavæðingar sem vildi öll sérkenni burt. Okkar menning hefði gildi í sjálfu sér, töldum við, auk þess sem líta mætti á hana sem framlag til fjölmenningar í fjölbreyttum heimi. Allir vissu að á brattann væri að sækja og yrðu allir að leggja sig fram.
Skyndilega var þetta orðinn löstur, til marks um andúð á aðkomufólki, öðrum siðum, forpokun og þjóðarremba.
Ekkert af þessu var satt en tíðarandinn sagði að þetta væri satt.
Hver er þá lærdómurinn? Hann er sá að það eigi að vera á ábyrgð okkar allra að smíða tíðarandann, að við hættum að láta smíða hann fyrir okkur, mata okkur á hagsmunatengdum sannleika þeirra sem nærast á þeim vanda sem þeir sjálfir eru valdir að, misrétti og mengun. Það eru þeir sem þurfa að víkja svo heimurinn fái að þróast í þágu almannahagsmuna, raunverulegrar náttúruverndar og fjölbreytni í menningu. Þannig munu mennirnir og tímarnir haldast í hendur inn í framtíðina heiminum öllum til hagsbóta.