Fara í efni

ODDUR TEKUR VIÐ RAUÐUM ÞRÆÐI

Um síðastliðna helgi heimsótti ég Odd F. Helgason, framkvæmdastjóra ORG ættfræðiþjónustunnar. Ekki er þetta í fyrsta sinn sem ég heimsæki Odd en ég átti við hann tvíþætt erindi.

Í fyrsta lagi að hafa uppi á tilteknum ættartengslum frá nítjándu öld og þeirri átjándu. Þar stóð ekki á svari og mikinn umframfróðleik, sem mér þótti fengur að, hafði ég í farteskinu að loknum fundi mínum með ættfræðingnum og fyrrum sjómanninum Oddi F. Helgasyni.

Hin ástæðan var sú að efna nokkurra mánaða loforð um að færa bóksafni ORG þjónustunnar, sem er til húsa við Skeljanes í Skerjafirði í Reykjavík, bók mína Rauða þráðinn sem kom út í byrjun þessa árs.

Þykir mér heiður að því að safnið hafi bókina á sinni hillu.

ORG ættfræðiþjónustan býður upp á áhugaverða þjónustu. Þótt Íslendingabók sé að mörgu leyti frábær þá hefur ORG vinninginn þegar kemur að fróðleik sem safnað hefur verið um ótrúlega marga Íslendinga ekki aðeins hér á landi heldur einnig vestan hafs.

Sjá hér: http://www.orgehf.is/