Fara í efni

MINNINGARORÐ UM RAGNAR ARNALDS

Í dag fór fram útför Ragnars Arnalds fyrrum alþingismanns og baráttumanns fyrir þjóðþrifamálum, fullveldi Íslands og herlausu landi. Margir minntust Ragnars í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag og var ég í þeim hópi. Eftirfarandi eru mín minningarorð um Ragnar Arnalds: 

Ragnari Arnalds kynntist ég vel á fyrsta kjörtímabili sem ég sat á Alþingi en það var hins vegar síðasta kjörtímabil hans á þingi. Þá hafði hann þegar gegnt þingmennsku í rúma þrjá áratugi. Áður hafði ég haft nokkur kynni af Ragnari, bæði beint en þó meira óbeint, þegar hann gegndi embætti fjármálaráðherra á árunum 1980 til 1983 en á þeim tíma var ég að stíga mín fyrstu skref á kjaramálavettvangi BSRB. Öll voru kynni mín við Ragnar á þessum árum ánægjuleg.
Minnisstætt er hve áhugasamur ráðherrann var að efla menntun starfsmanna, bæði menntun sem nýttist í starfi en einnig menntun sem væri til þess fallin að auka með starfsfólki ánægju og gleði. Þá var hann fylgjandi aðkomu launafólks að stjórnkerfinu bæði til að hafa áhrif á ákvarðanir sem snertu hag þess svo og einnig til að gera stjórnsýsluna gagnsærri.
Ragnar Arnalds valdist til forystu hvar sem hann fór og hef ég grun um að það hafi ekki verið vegna þess að hann hafi sóst eftir slíku hlutverki heldur vegna hins hve vel allir treystu honum til verka. Oftar en ekki gátu stríðandi fylkingar sætt sig við að lúta verkstjón hans en mestu skipti þó hve glæsilegur málsvari hann var, vel máli farinn, rökvís og yfirvegaður. Þá kunni hann að beita stílvopninu betur en flestir menn enda haslaði hann sér völl sem rithöfundur.
Sjálfstæði Íslands var Ragnari Arnalds alla tíð hugleikið. Hann var á sínum tíma ritstjóri Frjálsrar þjóðar, blaðs sem heiti sínu trútt vildi standa vörð um frelsi og fullveldi þjóðarinnar og löngu síðar varð hann fyrsti formaður Heimssýnar, samtaka fullveldissinna, og gegndi þar forystuhlutverki á meðan þau samtök voru að slíta barnsskónum. Óhætt er að segja að varðstaða um sjálfstæði Íslands hafi verið rauði þráðurinn í pólitísku lífshlaupi Ragnars Arnalds.
Með honum er genginn eftirminnilegur maður sem setti svip á sína samtíð, hugsjónamaður sem brann fyrir þau baráttumál sem hann bar fyrir brjósti. Mættu vera fleiri hans líkar.
Ég votta eiginkonu og fjölskyldu Ragnars Arnalds innilega samúð við fráfall hans.