Fara í efni

BREIÐFIRÐINGAKÓRINN SYNGUR INN JÓLIN

Ef ég fæ því komið við læt ég mig ekki vanta á jólatónleika Breiðfirðingakórsins. Og á sunndudag fékk ég því einmitt komið við að sækja tónleikana þetta árið.
Stundin var yndisleg, allt frá því að Gleðileg jól Händels með texta Ingólfs Jónssonar frá Prestbakka hljómaði í Fella- og Hólakirkju þar sem tónleikarnir fóru fram og þar til allir tóku undir með kórnum í ljóðlínum Sveinbjörns Egilssonar í Heims um ból. Inn á milli voru ein átján lög, Ave maría Kaldalóns að sjálfsögðu, Ó, helga nótt, Nóttin var sú ágæt ein og önnur lög eftir því.
Og ekki má gleyma kaffinu með piparkökum og kleinum. Tónleikagestir spjölluðu saman, ilmur af kaffi og bakkelsi fyllti loftið og bjó til það sem allir voru að sækjast eftir, jólastemningu.
Þetta segi ég nú ekki til annars en að þakka fyrir mig og minna á hvers virði það er að færa birtu inn í lífið þegar myrkrið gerist svartast.