Guardian um IMF og OECD: Stofnanir staðnaðrar hugmyndafræði

Bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD), birtast okkur iðulega í fjölmiðlum sem yfirvegaðar og óháðar stofnanir, en eru í reynd fyrst og fremst öflug verkstæði, starfrækt í þágu alþjóða auðvaldsins. Jafnan þegar ríkisstjórnir voga sér að efla almannaþjónustuna blikka rauðu ljósin. Á hinn bóginn streyma lofsyrðin frá þessum stofnunum þegar skorin eru niður útgjöld til samfélagsmála. Við þekkjum þetta af skýrslum, sem gerðar hafa verið um Ísland.
Ein slík kom fram í upphafi árs frá OECD um efnahagsástandið á Bretlandi. Mikil varnaðarorð voru uppi um hættuna sem stafaði af auknum útgjöldum til samfélagsmála. Eitt þótti þó lofsvert: Ríkisstjórn Blairs ætlaði að koma á skólagjöldum við breska háskóla!
Í leiðara í viðskiptadálki breska stórblaðsins Guardian 21. janúar sl., er athyglisverð umfjöllun um fyrrnefndar stofnanir af þessu tilefni. Þar segir: "...bæði IMF og OECD byggja heimssýn sína á óðaverðbólgutímanum, sem var við lýði á áttunda áratug síðustu aldar og sú sýn hefur ekkert breyst. Þessum stofnunum er stjórnað af mönnum, sem trúa á þá hugmyndafræði, að efnahagskerfi sem byggja á lágri skattheimtu, séu betri en þau sem hafa háa skatt; að einkageirinn sé betri en sá opinberi, og að sérhver ríkisstjórn, sem gangi gegn þessari hugsun stefni landi sínu í óðaverðbólgu og gjaldþrot."
Höfundur leiðarans hvetur menn til að taka skilaboðin frá þessum stofnunum með varúð. Hann bendir á, að samfélagsþjónustan í Bretlandi hafi verið orðin aðþrengd og hafi innspýtingin verið nauðsynleg, og í öðru lagi, þá hafi það sýnt sig að styrking almannaþjónustunnar hafi reynst efnahagslífinu mjög til góðs. Samdráttar hafi verið farið að gæta og hafi það einfaldlega sýnt sig að efnahagsstjórnun í anda Keynes hafi reynst vel!
Eitt athyglisvert segir leiðarahöfundur að auki, sem er umhugsunarvert fyrir okkur hér á landi og það snýr að hrifningu OECD á ákvörðun bresku stjórnarinnar að koma á skólagjöldum við breska háskóla. Þar segir að skýringin á hrifningu OECD sé sú, að "þegar tekist hafi að koma þessari grundvallarstefnubreytingu fram, þá verði auðveldara að innleiða hana á öðrum sviðum almannaþjónustunnar."

Á meðal annarra orða, hvað borga Íslendingar mikið fyrir að halda þessum apparötum uppi?

Fréttabréf